Eignaumsjón stóð á dögunum fyrir vel sóttum vorfundi um stöðuna á fasteignamarkaðinum og framtíðarþróun í stjórn og umsjá fjölbýlishúsa þar sem ræðumenn voru Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagdeild Landsbankans og Pál Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Í erindi sínu fór Ari yfir stöðuna á fasteignamarkaði og sagði hann verð fasteigna hafa aukist mjög á síðustu árum, eða um rúm 9% á ári frá 2002. Að undanförnu hefur þó hægst töluvert um, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu og vöxturinn yrði væntanlega ekki nema um 5%, sem er töluvert lægra en spáð var fyrir um. Þetta væri um margt svipuð þróun og var á árunum fyrir hrun en þó væri þar grundvallarmunur á. Staða heimila hvað varðar eignir og skuldir væri mun betri nú en var á síðasta þensluskeiði og þau því mun betur í stakk búin nú til að mæta sveiflum á markaði.
Óvissan snýr að framboði og eftirspurn
„Við höfum því litlar áhyggjur af þessu. Það sem er áhyggjuefni er hve lítil vitneskja er um hvað er að gerast á byggingamarkaði,“ segir Ari og bendir á að staðan hafi lítið skánað frá 2005-2008. Það sé erfitt að festa reiður á hversu mikið sé verið að byggja, hvar og hvaða tegundir eigna. „Hvað koma til að mynda margar tveggja herbergja íbúðir inn á markað í ár og hvar verða þær? Er verið að byggja of mikið af íbúðum sem fáir vilja eða geta keypt?“
Ari segir viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafa haldist töluvert stöðug en það geti verið blekkjandi því nú séu komnir til sögunnar stórir aðilar á markaði, á borð við leigufélög sem byggi t.d. stór fjölbýlishús en þeim fylgi þá bara ein þinglýsing per hús. Þá sé húsnæði sem fer undir airbnb ekki inni á markaðinum lengur og því sé stór hluti íbúða „fastur“, þ.e. gangi ekki kaupum og sölum eins ört og áður.
Ari setti einnig spurningarmerki við staðhæfingar um að áætlað byggingarmagn anni alls ekki eftirspurn og sagði slíkt ekki hafa verið rannsakað nægilega vel. Ýmsum fullyrðingum um skort sé kastað fram, en ef til vill sé ástandið ekki jafn slæmt og talað hafi verið um og margir hafi aðlagast að breyttum aðstæðum.
Húsfélög stofnuð áður en bygging er fullkláruð
Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, fór yfir þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í stjórn húsfélaga á undanförnum árum. Með tilkomu stærri og tæknilegri fjölbýlishúsa sé vinnan og kröfurnar orðnar meiri en hægt er að sinna með einföldu vasabókhaldi af einum fórnfúsum íbúa hússins. Nútímaleg fjölbýlishús séu stærri og tæknilega flóknari byggingar en áður hafi þekkst hérlendis, sem kalli á nýja nálgun. Þau séu búin flóknum tæknibúnaði, öryggis- og aðgangsstýringu og þar fram eftir götum, sem gerir störf hefðbundinna húsfélaga umfangsmeiri og flóknari en áður hafi þekkst, enda séu því margir farnir að leita til faglegra umsjáraðila á borð við Eignaumsjón.
„Á undanförnum árum hafa risið upp samfélög fjölbýlishúsa og fleiri eru í byggingu. Væntingar notenda þeirra eru miklar og fólk vilji koma að fullbúinni vöru. Það er ekki bara nóg að húsið sé tilbúið heldur vilja menn líka að rekstur og þjónusta séu einnig tilbúin,“ segir Páll Þór. Því sé æ algengara að húsfélög séu stofnuð á meðan íbúðir eru í byggingu, svo að fólk viti nákvæmlega að hverju það gengur þegar það kaupir fasteign. Þá eru lög húsfélagsins fullkláruð og rekstur og kostnaður við húsfélagið á hreinu.
Fundargögn má skoða hér
Ari Skúlason-Eignaumsjón-maí-18
Páll Þór Ármann Vorfundur EU 2018