Samstarfssamningur við Origo um prentþjónustu er mikilvægt skref í átt að grænni rekstri Eignaumsjónar en samningurinn mun bæta öryggi í prentun gagna, auka hagræðingu í rekstrinum og draga úr pappírssóun.
Samningurinn felur í sér að svokallað Uniflow kerfi frá Origo, sem tryggir bæði umhverfisvæna og örugga prentun, skönnun og ljósritun, verður sett upp hjá Eignaumsjón. Með tilkomu þess er gert ráð fyrir að ná um 20-25% sparnaði í útprentun skjala, sem dregur umtalsvert úr bæði prenthylkja- og pappírsnotkun, en á ársgrundvelli hefur fjöldi útprentaðra blaða hjá félaginu verið á bilinu 250-300 þúsund.
„Þetta er ánægjulegt skref í þá átt að gera rekstur Eignaumsjónar umhverfisvænni og grænni með því að draga úr pappírssóun um leið og við aukum hagræðingu og fáum betri yfirsýn yfir prentkostnaðinn,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri, sem undirritaði samkomulagið ásamt Jóni Gunnari Jónssyni, lausnaráðgjafa hjá Origo.
Prentkerfið býður einnig upp á margvíslega nýja möguleika í prentun gagna fyrir Eignaumsjón, í bæði lit og svarthvítu, jafnframt því sem kerfið eykur allt öryggi í prentun og aðgengi að gögnum, hvort sem um er að ræða trúnaðarskjöl eða annað. Loks má nefna tæknilausnir tengdar skönnun skjala og OCR lestri, sem flýta umtalsvert fyrir skráningu margvíslegra gagna, sem og frekari úrvinnslu þeirra í tölvukerfi Eignaumsjónar.