Tillögur stjórnvalda um aðgerðir vegna kórónaveirunnar hafa verið samþykktar sem lög frá Alþingi og hafa þegar tekið gildi. Með lagabreytingunni er heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbygginga og endurbóta/viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkuð úr 60% í 100% frá 1. mars á þessu ári til áramóta. Heimildin nær einnig til virðisaukaskatts sem greiddur er vegna vinnu manna á byggingarstað frístundahúsnæðis, hönnunar og eftirlits vegna nýbygginga og endurbóta eða viðhalds íbúðar- og frístundahúsnæðis og umhirðu íbúðarhúsnæðis.
Tillögurnar voru samþykktar samhljóða á Alþingi. Samkvæmt þeim bætast eftirtalin bráðabirgðaákvæði, sem snúa að viðhaldsvinnu vegna heimila og frístundahúsnæði, við lög um virðisaukaskatt, nr. 5/1988.
- Heimilt er á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess.
- Heimilt er að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Jafnframt er heimilt að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.
- Heimilt er að endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar, s.s. hvers konar þrifa, og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, t.d. garðslátt o.fl.
Ráðherra heimilt að setja reglugerð
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum. Áréttað er í lagatextanum að skilyrði endurgreiðslu samkvæmt þessum bráðabirgðákvæðum er að seljandi umræddrar þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á þeim tímapunkti þegar viðskipti eiga sér stað. Jafnframt er tekið fram að þessi bráðabirgðaákvæði taki ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla laga um virðisaukaskatt.