Um nýliðin mánaðamót var búið að halda á fimmta hundrað stofn-, hús- og aðalfundi húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón. Þar af var búið að halda um 300 fundi áður en gripið var til þess ráðs í mars 2020 að fresta fundum í kjölfar samkomubanns vegna kórónaveirufaraldursins. Fundahöld hófust að nýju þegar slakað var á samkomubanninu í byrjun maí. Hlé er á fundarhöldum yfir sumarleyfistímann en ljúka á öllum aðalfundum á vegum Eignaumsjónar fyrir októberlok.
Strax og slakað var á samkomubanni vegna kórónaveirunnar í byrjun maí var hafist handa að nýju hjá Eignaumsjón að halda aðal- og húsfundi, með viðeigandi öryggisráðstöfunum samkvæmt tilmælum landlæknis.
Hlé á fundarhöldum í júlí
Nú er búið að halda á annað hundrað fundi hjá Eignaumsjón frá byrjun maí, fyrst og fremst hjá félögum þar sem þörf var á ákvarðanatöku vegna fyrirhugaðra viðhaldsframkvæmda á þessu ári. Hlé er núna á fundarhöldum, enda margir í sumarfríi og því almennt erfitt að tryggja að eigendur mæti. Hafist verður handa að nýju við fundarhöld eftir sumarfrí, eða um miðjan ágústmánuð. Um hundrað aðalfundir eru nú eftir hjá húsfélögum, sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón og verður þeim lokið eigi síðar en fyrir októberlok, í samræmi við tilmæli frá félagsmálaráðuneytinu um framkvæmd aðalfunda í fjöleignarhúsum vegna samkomubannsins.
Þá má jafnframt geta þess að til stóð hjá Eignaumsjón í samkomubanninu að bjóða upp á rafræna aðalfundi húsfélaga. Það var hins vegar fallið frá þeim áformum eftir að ráðuneytið upplýsti að rafrænir fundir og notkun rafrænna undirskrifta væri ekki í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaganna.
Við erum á vaktinni!
Um leið og við óskum öllum viðskiptavinum Eignaumsjónar gleðilegs sumars, minnum við á að skrifstofan okkar að Suðurlandsbraut 30, 108 Reykjavík, er að sjálfsögðu opin á skrifstofutíma í allt sumar. Einnig er hægt að hringja í síma 585-4800, senda tölvupóst á thjonusta@eignaumsjon.is eða vera í sambandi við okkur á netspjallinu á heimasíðunni www.eignaumsjon.is.