Eftir tilslakanir á samkomutakmörkunum vegna COVID-19 sem tóku gildi í gær, 15. apríl 2021, um að 20 manns megi nú koma saman er aftur byrjað að boða aðalfundi hús- og rekstrarfélaga sem falla innan þessa ramma hjá Eignaumsjón. Reglurnar gilda næstu þrjár vikur og því er ljóst að ekki verður hægt að ljúka öllum aðalfundum fyrir apríllok eins og stefnt var að.
Engar undanþágur eru núna fyrir húsfélög frá reglum um samkomutakmarkanir. Því er stefnt að því hjá Eignaumsjón næstu þrjár vikurnar að ljúka sem flestum aðalfundum hjá húsfélögum með allt að 20-25 íbúðir/eignarhluti, sem eiga enn eftir að halda aðalfund. Í byrjun maímánaðar verður svo horft til þess að skipuleggja fundarhöld í stærri húsfélögum sem eiga eftir að halda aðalfundi, að því gefnu að þá verði mögulegt að halda fjölmennari fundi.
Vonast til að ljúka öllum aðalfundum fyrir sumarfrí
„Það var búið að halda yfir 300 af alls á sjötta hundrað aðalfundum hús- og rekstrarfélaga hjá okkur þegar hert var á samkomutakmörkunum í lok mars sl. Miðað við stöðuna núna erum við að gera okkur vonir um að húsfélögin sem eftir eru geti klárað aðalfundi sína fyrir sumarfrí, að því gefnu að sjálfsögðu að auknar tilslakanir verði veittar eftir þrjár vikur og að ekkert óvænt komi upp á í millitíðinni,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs hjá Eignaumsjón.
Öll aðstaða fyrir rafræna fundi er nú til staðar hjá Eignaumsjón en ekki er enn hægt að grípa til þess úrræðis fyrir hús- og aðalfundi, þar sem fyrirhugaðar lagabreytingar á fjöleignarhúsalögunum eru enn í vinnslu. Samráðsferli um breytingarnar lauk fyrir nokkru og munu vonir standa til að málið fari fyrir Alþingi áður en þingið fer í sumarfrí.
Áfram hvatt til takmarkaðra heimsókna á skrifstofu Eignaumsjónar
Allt starfsfólk Eignaumsjónar er nú aftur með viðveru á skrifstofu félagsins á Suðurlandsbraut 30 en þar verður eftir sem áður fyllsta öryggis gætt, s.s. með aðskildum vinnusvæðum, handþvotti, sprittun og grímunotkun. Kappkostað er að fylgja í öllu þeim sóttvarnartilmælum sem yfirvöld gefa út og tryggja að dagleg starfsemi Eignaumsjónar haldist gangandi fyrir þau hús- og rekstrarfélög sem eru í þjónustu hjá félaginu.
Áfram er þess farið á leit við viðskiptavini að þeir takmarki, eins og hægt er, heimsóknir í þjónustuver og skrifstofu félagsins á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. Engu að síður er þó tekið á móti gögnum á skrifstofutíma en hvatt er eindregið til þess að allar almennar fyrirspurnir og samskipti fari fram með tölvupósti á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is. Einnig má hafa samband við þjónustuverið í netspjalli á heimasíðunni, www.eignaumsjon.is, eða hringja í síma 585-4800. Enn fremur skal áréttað að viðskiptavinir geta skilað inn gögnum í póstkassa Eignaumsjónar, sem er við inngang á suðurhlið/bakhlið Suðurlandsbrautar 30.