„Samkvæmt spá sem við höfum gert út frá opinberum gögnum gerum við ráð fyrir að eftir 10 ár verði um 50% fólksbíla hér á landi knúin raforku að einhverju eða öllu leyti. Það gera þá um 150.000 bílar en þeir voru aðeins um 15.000 um síðustu áramót. Þessir bílar dreifast víða og verða í hverju einasta fjölbýlishúsi þannig að innan áratugar þurfa öll fjölbýli að vera búin að koma upp rafhleðslustöðvum. Langflestir kaupendur fasteigna gera orðið kröfu um að slíkar tengingar séu til staðar, ekki í óráðinni framtíð heldur strax í dag.“
Hlutlaus og fagleg úttekt
Þetta segir Bjarni G. Hjarðar, byggingar- og umhverfisverkfræðingur en hann er sérfræðingur og ráðgjafi á fasteignasviði Eignaumsjónar. Hann leiðir þróun nýjunga í þjónustu Eignaumsjónar, m.a. úttektir á hleðslufyrirkomulagi rafbíla í fjölbýlishúsum. „Við bjóðum upp á hlutlausa og faglega úttekt ásamt ráðgjöf um bestu framtíðarlausnir varðandi uppsetningu stöðvanna. Að mörgu þarf að huga í upphafi s.s. að tryggja að heimtaug í hús sé nægjanlega öflug, hvaða búnaður skuli valinn, hver sé tæknileg geta hans og að álagsstýringarbúnaður sé til staðar svo fáein dæmi séu nefnd.“
Bjarni segir að útfærsla á hleðslu rafbíla í fjölbýlishúsum hafi oft verið einfalt viðfangsefni meðan fáir rafbílar voru í umferð og unnt var að leysa málin þannig að dugði um hríð. Eftir að stjórnvöld breyttu fjöleignarhúsalögum í maí 2020, sem skyldaði húsfélög til að bregðast við óskum um að koma upp rafhleðslustöðvum, sé hins vegar ljóst að huga þurfi betur að heildarfyrirkomulagi þessara mála með áherslu á framtíðarlausnir og réttláta skiptingu kostnaðar milli húsfélaga og einstakra notenda.
Þrenns konar Bílastuð
Bílastuð er ný þjónustuleið Eignaumsjónar vegna hleðslu rafbíla. Í Bílastuði 0 er gerð úttekt á hleðsluaðstöðu húsfélagsins og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Í Bílastuði 1 færir Eignaumsjón innheimtu gjalda vegna hleðslu rafbíla frá ábyrgð húsfélagsins yfir í sjálfvirkt fyrirkomulag og reikningagerð.
„Þá er þriðja leiðin það sem við köllum Bílastuð 1+1 en þá ábyrgist Eignaumsjón rekstur og viðhald kerfanna ef þau eru að fullu snjallvædd en það tryggir nákvæma skrá um notendur og notkun hvers fyrir sig sem auðvitað er forsenda fyrir sanngjarnri og réttri innheimtu. Okkar sýn er að sem flest húsfélög líti til opinna lausna, þ.e. að engu skipti við val á kerfi hver framleiðandi hleðslustöðva er eða hvaða aðili selur notandanum raforkuna.
Jarðefnaeldsneytisbílar bannaðir
Við spyrjum Bjarna að lokum út í áform stjórnvalda um að hætta innflutningi árið 2030 á fólksbifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
„Já, stefnan liggur fyrir og er hún í samræmi við það sem önnur ríki í Evrópu hafa ákveðið. Þá má og nefna að allir helstu bílaframleiðendur heims hafa þegar ákveðið að hætta notkun olíu eða bensíns sem orkugjafa í sína nýju bíla eftir aðeins nokkra mánuði og misseri. Nú er meðalaldur fólksbíla um 12,5 ár og það gefur auga leið að þú færð ekki hátt endursöluverð fyrir bílinn þinn ef hann er knúinn bensíni eða olíu þegar þessi staða er komin upp. Því velja langflestir rafbíla eða tengiltvinnbíla í dag. Fólk mun ekki eiga val um þetta heldur stendur það frammi fyrir orkuskiptum bílaflotans innan örfárra ára – orkuskipta sem svo sannarlega eru tímabær af umhverfislegum ástæðum.“
Viðtal við Bjarna G. Hjarðar, sérfræðing á fasteingasviði Eignumsjónar í Sóknarfæri í júní 2021.