Flest eldri fjöleignarhús eru ekki byggð með hleðslu rafbíla í huga og því þarf í mörgum tilfellum að leggja nýjar, eða stækka eldri heimtaugar ásamt því að setja upp álagsstýringarkerfi.
Í ár er stærstur hluti nýskráðra bifreiða knúinn áfram með rafmagni að öllu eða einhverju leyti. Af því leiðir að eigendahópur rafbíla verður stærri og hleðslustöðva er þörf í fleiri húsbyggingum, þ. á m. fjölbýlishúsum.
Með nýrri lagabreytingu um fjöleignarhús var ætlunin að liðka fyrir rafbílavæðingu í fjölbýlishúsum. Þannig geta rafbílaeigendur knúið húsfélagið til að gera kostnaðaráætlun varðandi uppbyggingu hleðslustöðva og ákveða í framhaldinu hvaða ráða eigi að grípa til. Slíkar framkvæmdir hlaupa oft á milljónum króna svo aðrir félagar í húsfélaginu kunna að telja sig hlunnfarna við að borga hluta í hleðslustöð nágranna sinna.
Hleðslustöð auki virði íbúða
Bjarni Gnýr Hjarðar, sérfræðingur hjá Eignaumsjón, segir hleðslustöð gulls ígildi fyrir íbúðaeigendur, hvort sem hún er sameiginleg eða einkastöð og segir þær auka virði íbúðanna á fasteignamarkaðinum. Fjárfestingin muni borga sig margfalt til baka enda hleðslustöð aðdráttarafl fyrir kaupendur.
Reykjavíkurborg og Orkuveitan gerðu með sér samkomulag í apríl 2019 um að styrkja húsfélög fjöleignarhúsa við uppsetningu hleðslustöðva. 40 milljónir króna renna árlega í sjóðinn og þegar hafa 49 húsfélög sótt um styrk og 31 fengið greitt. Í þessum 49 fjöleignarhúsum sem sótt hafa um eru alls 1.846 íbúðir.
Styrkja framkvæmdir í fjölbýlum
Styrktarfjárhæðin nemur að hámarki 1,5 milljónum króna og meðalkostnaður hvers verkefnis hljóðar upp á 2,5 milljónir króna að meðaltali með virðisaukaskatti. Hægt er að fá virðisaukaskattinn af hleðslustöðvunum sjálfum endurgreiddan.
Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, segir aðsóknina vera mikla miðað við það að sjóðurinn hafi hvergi verið auglýstur. 80% Reykvíkinga búi í fjölbýlishúsum og því sé um að ræða mikilvægt skref í orkuskiptunum. Guðmundur segir stóran hluta kostnaðar í mörgum framkvæmdum fela í sér stækkun eða lagningu nýrrar heimtaugar, sérstaklega í eldri húsum. Hann segir það geta reynst flöskuháls fyrir fjöleignarhúsin, bæði hvað varðar kostnað og mögulega bið eftir heimtaug í framtíðinni.
Stækkun lagna betri kostur
Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, telur betra að stækka núverandi lagnir í stað þess að fjárfesta í nýjum heimtaugum. Snjallar hleðslulausnir dragi verulega úr þörf á stækkun þar sem heimtaugin nýtist betur. Bjarni Gnýr er annarrar skoðunar: „Gömlu fjölbýlishúsin eru einfaldlega ekki hönnuð til þess að hlaða rafbíla. Það er nánast alltaf skynsamlegt að fá sér nýja heimtaug, þessar byggingar eru bara ekki með heimtaug til hleðslu rafbíla.“ Hann sér fram á heimtaugaskort á næstu árum ef rafbílavæðingin heldur áfram á sömu braut.
Jóhannes hjá OR hefur ekki áhyggjur af slíkum skorti: „Veitur fylgjast með afhendingartíma heimlagna og munu bregðast við ef hann verður óeðlilega langur. Oftast dugir að stækka heimtaugar og hleðslulausnir með álagsstýringu draga verulega úr þörf á stækkun heimtauga. Fjölmargir aðilar ofmeta gríðarlega hleðsluþörf vegna rafbíla.“
Vill varast offjárfestingu
Jóhannes er frekar á því að rafbílavæðingin muni leiða til offjárfestingar og hærri verðlagningar. „Stofnkerfi rafmagnsdreifikerfis er öflugt og ræður við talsverða álagsaukningu. Veitur telja að aukin rafbílavæðing og orkuskipti almennt muni leiða til lægri gjaldskráa ef innviðir eru nýttir vel og ekki offjárfest í þeim,“ segir Jóhannes.
Baldur S. Blöndal
baldurb@mbl.is
Umfjöllunin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 14. júlí 2021.