Þrátt fyrir COVID-19 bakslag og gular og rauðar veðurviðvaranir fyrstu mánuði ársins gengur vonum framar að halda hús- og aðalfundi félaga sem eru í þjónustu Eignaumsjónar. Nú í dymbilvikunni var búið að halda um 440 fundi frá áramótum og er þá eftir að halda um 95 fundi. Standa vonir til að þeim verði öllum lokið ekki seinna en um miðjan maímánuð.
Lögum samkvæmt skulu aðalfundir hús- og rekstrarfélaga haldnir á tímabilinu frá janúarbyrjun til aprílloka en síðastliðin tvö ár hafa verið veittar undanþágur frá þeim ákvæðum vegna COVID-19 pestarinnar.
Pestin og óveður töfðu fundarhöld
Fjöldatakmarkanir vegna pestarinnar héldu aftur af fundarhöldum fyrstu tvo mánuðina. Einnig settu óveður töluvert strik í reikninginn, því fresta þurfti fundarhöldum alloft. Þegar öllum sóttvarnarráðstöfunum var aflétt 25. febrúar sl. tóku fundarhöld mikinn fjörkipp, ef svo má að orði komast. Frá þeim tíma hafa að jafnaði verið haldnir um 40 fundir í viku hverri, ýmist í fundarsölum Eignaumsjónar á Suðurlandsbraut 30, í sölum úti í bæ eða þá í sameign viðkomandi félaga.
Mikið er lagt upp úr öllum undirbúningi aðalfunda hjá Eignaumsjón og að rétt sé staðið að boðun, svo fundurinn verði löglegur og bindandi fyrir þátttakendur. Hitinn og þunginn af skipulagi, boðun og framkvæmd aðalfunda hjá Eignaumsjón hvílir á fundarteymi félagsins, sem og þjónustuverinu, fjármálasviðinu og vöskum hópi fundarstjóra.
Áhugaverður tími
„Aðalfundatíminn er alltaf áhugaverður. Þá gefst tækifæri til að hitta viðskiptavini okkar og heyra hvað helst brennur á þeim,“ segir Halla Mjöll Stefánsdóttir, sem er ráðgjafi á þjónustusviði og er í fundarteyminu.
Fyrir utan hefðbundna afgreiðslu ársreikninga og kostnaðaráætlana félaganna, segir Halla að hleðslumál rafbíla í fjölbýli brenni á húsfélögum og mörg þeirra séu að nýta sér að fá hlutlausa úttekt Eignaumsjónar á hleðsluaðstöðu. Þá sé alltaf töluvert um mál sem snúi að dýrahaldi í fjölbýlishúsum, setningu húsreglna og fyrirkomulagi svalalokana. Töluvert sé líka alltaf um bókanir á aðalfundum vegna sorpmála, s.s. sorpflokkunar og umgengni um sorpgeymslur.
„Núna hefur líka borið talsvert á því að illa gangi að manna stjórnir húsfélaga. Sem betur fer hefur í flestum tilvikum tekist að leysa úr málum en þess eru þó dæmi að fundarstjórar hafa þurft að slíta fundi, ef ekki tekst að manna stjórn, og verður þá að boða til nýs fundar í viðkomandi húsfélagi, með tilheyrandi fyrirhöfn.“