Öllum fjármunum hefur verið úthlutað úr 120 milljóna króna sjóði sem Reykjavíkurborg og OR stofnuðu árið 2019 til að styðja húsfélög fjölbýlishúsa í borginni við að setja upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald eða aukið fé í sjóðinn, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Ákvörðun um framhald sjóðsins og aukið fjármagn til styrkveitinga til húsfélaga fjölbýlishúsa vegna uppsetningar hleðslubúnaðar fyrir rafbíla er eitt fjölmargra úrlausnarmála sem bíður nýs meirihluta í borginn en vilji var til þess hjá fráfarandi meirihluti að framlengja átakið.
Úthlutunarreglur sjóðsins voru samþykktar af borgarráði í júlí 2019, í framhaldi af samkomulagi borgarinnar og OR í apríl á sama ári þess efnis að báðir aðilar skuli leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár til sjóðsins, eða samtals 120 milljónum króna. Hámarks styrkupphæð til hvers húsfélags hefur verið ein og hálf milljón króna en þó aldrei meira en sem nemur 67% af heildarkostnaði verks með virðisaukaskatti, sjá nánar hér.
Hvetur til áframhaldandi stuðnings borgaryfirvalda
Það er reynsla sérfræðinga Eignaumsjónar, sem hafa á undanförnum misserum lagt sig í framkróka um að aðstoða húsfélög við úttektir á bestu kostum við útfærslu og uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla, að umræddir styrkir borgarinnar og OR, hafa skipt sköpum fyrir fjölmörg húsfélög í þessum efnum.
„Við hjá Eignaumsjón hvetjum meirihlutann sem tekur við völdum í borginni til að framlengja starfsemi styrktarsjóðsins og tryggja honum fjármagn. Stuðningur sjóðsins hefur bæði létt undir fjármögnun rafhleðslukerfa í húsfélögum og hraðað ákvarðanatöku og framkvæmdum, segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur á fasteignasviði hjá Eignaumsjón.
Verklag Eignaumsjónar skilar umtalsverðum sparnaði
Að sögn Bjarna hefur Eignaumsjón þegar gert fjölda úttekta fyrir húsfélög, sem eru að bregðast við beiðnum um aðgang að hleðslukerfi fjöleignarhúss í samræmi við nýleg ákvæði fjöleignarhúsalaganna. Í framhaldi af úttektunum hafa sérfræðingar Eignaumsjónar aðstoðað stjórnir húsfélaga, sem þess hafa óskað, við að útvega tilboð miðað við fyrirliggjandi verkáætlanir.
„Samanburður okkar á 14 nýlegum tilboðum sýnir að næst hagstæðustu tilboðin í rafhleðslukerfi húsfélaga eru að meðaltali um 28% hærri en hagstæðustu tilboðin,“ segir Bjarni og því sé ljóst að verklag Eignaumsjónar skili húsfélögum umtalsverðum sparnaði.
„Dæmin sýna að í stærri verkefnum eru stjórnir húsfélaga að spara sem nemur ígildi þeirrar hámarksstyrkupphæðar sem borgin hefur verið að úthluta, með því að vanda verklag við undirbúning með aðstoð okkar hjá Eignaumsjón.“
Nánari upplýsingar um Bílastuð – þjónustu Eignaumsjónar við húsfélög vegna hleðslu rafbíla – er að finna hér.