Hörður Andrésson er nýr húsumsjónarmaður hjá Eignaumsjón. Hann hefur starfað samfellt við smíðar frá árinu 2002, lengst af fyrir Minjavernd við að gera upp gömul hús. Einnig hefur hann unnið við allskyns smíðavinnu fyrir Ístak, m.a. á Grænlandi og í Kaupmannahöfn fyrir Pihl & Søn.
Hörður er bæði menntaður húsasmiður og líffræðingur og vann hann hjá Hafrannsóknarstofnun í allmörg ár, áður en hann helgaði sig smíðunum.
Húsumsjón Eignaumsjónar
Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir faglegu eftirliti og umsjón með sameignum hús- og atvinnufélaga frá því að Eignaumsjón byrjaði að bjóða upp á húsumsjón árið 2017. Þjónustan tryggir reglubundna umsjón með sameign fasteignar, stuðlar að lækkun viðhaldskostnaðar og tryggir að ástand viðkomandi eignar sé ávallt eins og best verður á kosið.
Segja má að húsumsjónin komi í stað hefðbundinnar húsvörslu. Fagmaður á vegum Eignaumsjónar fer reglulega yfir ástand sameignar viðkomandi húseignar, fylgist með búnaði og kerfum og gerir nauðsynlegar úrbætur þegar þörf er á. Viðkomandi hefur einnig eftirlit með umhirðu og ástandi sameignar, innanhúss sem utan og kemur ábendingum og tillögum um úrbætur til hússtjórnar. Rík áhersla er lögð á góð samskipti og upplýsingaflæði með skýrslugjöf eftir hverja heimsókn til stjórnar viðkomandi húseignar.