Það sem bar hæst rekstrarlega á líðandi ári hjá okkur er án efa að framkvæmd aðalfunda komst á ný í fastar skorður, eftir tvö erfið COVID-19 ár, en við hjá Eignaumsjón erum að vinna fyrir um 800 húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa, með hátt í 18.000 íbúðum/fasteignum. Blessunarlega tókst okkur að ljúka langflestum aðalfundum á fyrstu fjórum mánuðum ársins, eins og lög mæla fyrir um, enda hafa ákvarðanir aðalfunda mikla þýðingu fyrir daglegan rekstur fjölbýlihúsa , sagði Daníel Árnason framkvæmdastjóri í desemberútgáfu blaðsins Sóknarfæris, þar sem spurt var hvað borið hefði hæst á árinu í starfsemi Eignaumsjónar.
Það er líka ánægjulegt að húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur hefur fjölgað jafnt og þétt á árinu, bæði í eldri fjöleignarhúsum og nýbyggingum. Nýju fjölbýlishúsin eru almennt stærri og tæknilega flóknari í rekstri og hafa því kallað á aðeins aðra nálgun í þjónustu okkar. Þau eru búin allskyns tæknibúnaði og sérhæfðum þáttum, s.s. hita-, öryggis- og aðgangsstýringum sem þarf að sinna, til viðbótar við hefðbundna fjármála-, funda- og rekstrarþjónustu. Það er mikilvægt að okkar mati að ná strax í byrjun utan um þessi stóru samfélög með skipulögðum og formföstum hætti til að ná utan um alla þætti sem skipta máli varðandi starfsemi húsfélagsins og rekstur sameignarinnar, lögum samkvæmt.
Hleðslumál rafbíla í fjölbýlishúsum hafa verið ofarlega á baugi í starfsemi Eignaumsjónar á líðandi ári. Þar höfum við stigið inn og bjóðum húsfélögum upp á hlutlausa úttekt á framtíðarfyrirkomulagi sem uppfyllir lagalegar skyldur húsfélaga. Við aðstoðum líka stjórnir húsfélaga við að útvega tilboð í hleðslukerfi og berum saman tilboð með hagsmuni húsfélaga að leiðarljósi. Þessi þjónusta hefur skilað umtalsverðum sparnaði til húsfélaga sem hafa nýtt sér hana. Einnig bjóðum við húsfélögum upp á greiðsluþjónustu fyrir innheimtu gjalda vegna hleðslu rafbíla.
Breytingar sem eru fram undan á sorphirðumálum á Íslandi með gildistöku nýrra laga um hringrásarhagkerfi um áramótin hafa einnig verið okkur hugleiknar hjá Eignaumsjón. Á nýju ári hefst söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi á höfuðborgarsvæðinu, sem kallar á breytingar. Til að varpa ljósi á framtíðarfyrirkomulag sorphirðumála stóðum við fyrir hádegisfundi fyrir stjórnir húsfélaga í þjónustu hjá okkur í byrjun nóvember þar sem fulltrúar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SORPU og Reykjavíkurborgar höfðu framsögu og svöruðu spurningum. Mæting var framar björtustu vonum og áhuginn mikill, eins og fjölmiðlaumræða að undanförnu hefur glögglega sýnt. Það blasir við að sorphirðumálin verða áfram í brennidepli á næsta ári og þar ætlum við okkur að leggja okkar viðskiptavinum lið og sama gildir um rafhleðslumál í fjölbýlishúsum.
Almennt höldum við jafnframt áfram að þróa og efla þjónustu okkar við fasteignaeigendur á komandi ári, eins og við höfum gert í þau bráðum 23 ár sem eru liðin frá því við hófum að ryðja brautina fyrir rekstrarumsjón fyrir húsfélög og atvinnuhúsnæði á Íslandi. Fjölbýlishúsum hérlendis mun halda áfram að fjölga og þau verða sífellt stærri og flóknari sem kallar á enn markvissari og betri þjónustu og til að ná utan um starfsemi og rekstur þessara stóru samfélaga.