Til að mæta auknum umsvifum á undanförnum misserum hefur Eignaumsjón nú komið sér fyrir í nýstandsettu skrifstofuhúsnæði á 2. hæðinni á Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík. Húsnæðið er sérstaklega aðlagað að starfsemi félagsins með þægindi viðskiptavina og starfsfólks í huga.
Segja má að ekki hafi verið leitað langt yfir skammt með nýtt húsnæði því síðustu níu árin hefur starfsemin verið til húsa á jarðhæðinni í sama húsi og fyrst um sinn verða fundarsalir félagsins áfram á jarðhæðinni, eða þar til framkvæmdum við fundaraðstöðu félagsins á annarri hæðinni lýkur síðar í haust.
Öll starfsemin undir nafni Eignaumsjónar
„Það má kannski segja að kaup okkar á starfsemi Fjöleigna fyrr í sumar hafi endanlega sprengt utan af okkur húsnæðið,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, en áréttar að tímabært hafi verið orðið að færa starfsemina um set, áður en sameining félaganna kom til.
„Frá deginum í dag að telja fer öll starfsemi hins sameina félags eingöngu fram undir merkjum Eignaumsjónar því fyrir helgina tókst okkur að klára að koma öllum gögnum og upplýsingum frá Fjöleignum inn í vinnuferla og verkumsjónarkerfi Eignaumsjónar, sem og virkja Húsbókina, mínar síður eigenda, fyrir öll félögin. Vil ég þakka okkar öfluga starfsfólki sem kom frá Fjöleignum fyrir vel unnin störf í samrunaferlinu, sem og tæknifólki okkar og öllum öðrum sem þar lögðu hönd á plóg“.
Velkomin á 2. hæðina á S30!
„Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum okkar í þessu nýja og glæsilega húsnæði sem sniðið hefur verið að starfseminni með bæði þægindi starfsfólks og viðskiptavina í huga,“ segir Daníel og áréttar að lokum að frá og með deginum í dag er inngangur á skrifstofu Eignaumsjónar um aðalinngang á suðurhlið/bakhlið hússins á Suðurlandsbraut 30. Aðgengi sé eins og best verði á kosið; lyfta í stigahúsi, gott framboð af bílastæðum nærri innganginum og stoppistöð almenningssamgangna framan við húsið.
Skrifstofa Eignaumsjónar er opin kl. 9-16 mánudaga til fimmtudaga og kl. 9-15 á föstudögum. Sími fyrirtækisins er 585-4800, netfangið er thjonusta@eignaumsjon.is og slóð á heimasíðuna, þar sem notendur skrá sig inn í Húsbókina, er www.eignaumsjon.is.