Félagsmálaráðuneytið leggur til í ljósi þeirra einstöku aðstæðna sem eru uppi í þjóðfélaginu vegna kórónaveirunnar að aðalfundum húsfélaga, sem halda skal ár hvert fyrir lok aprílmánaðar, verði frestað um allt að sex mánuði. Skal öllum aðalfundum húsfélaga vera lokið fyrir októberlok 2020. Jafnframt er lagt til að kjörtímabil stjórna húsfélaga verði framlengt um þann tíma sem nemur töfum á að halda aðalfund.
Þessar tillögur koma í framhaldi af bréfi Eignaumsjónar til félagsmálaráðuneytisins þar sem tilkynnt var um að í kjölfar samkomubanns hafi verið gripið til þess ráðs að fresta boðun aðalfunda hús- og rekstrarfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón. Ekki hafi verið talið forsvaranlegt vegna almannaheilla að halda fundarhöldum áfram.
Ráða leitað hjá ráðuneyti
Óskað var eftir leiðbeinginum ráðuneytisins í þessari óvenjulegu stöðu en í bréfi Daníels Árnasonar, framkvæmdastjóra Eignaumsjónar, kom m.a. fram að búið hefði verið að halda um 300 aðalfundi hjá húsfélögum í íbúðar- og atvinnuhúsum í þjónustu hjá Eignaumsjónar áður en samkomubannið tók gildi. Eftir væri að halda um 260 aðalfundi fyrir árið 2020 og ljóst að það næðist ekki fyrir apríllok, eins og fjöleignarhúsalögin kveða á um.
Í svarbréfi ráðuneytisins kemur fram að félagsmálaráðuneytið vilji ávallt vera vakandi gagnvart framkvæmd laga um fjöleignarhús og hugsanlegum vanköntum sem kunna að vera á lögunum og Eignaumsjón þakkað erindið. Telur ráðuneytið rétt að leggja til að aðalfundum húsfélaga verði frestað um allt að sex mánuði og verði því allir aðalfundir húsfélaga haldnir fyrir lok októbermánaðar 2020.
Kjörtímabil stjórna framlengt
Í svari félagsmálaráðuneytisins til Eignaumsjónar er einnig lagt til, í ljósi tillögu um frestun aðalfunda í allt að sex mánuði, að kjörtímabil stjórna húsfélaga verði framlengt um þann tíma sem nemur töfum á að halda aðalfund, þó aldrei lengur en til loka október 2020.
Jafnframt áréttar ráðuneytið að lögum samkvæmt hafi stjórnir húsfélaga umboð til að taka ákvarðanir hvað varðar daglegan rekstur og hagsmunagæslu vegna sameignar húsfélags. Það eigi m.a. við minni háttar viðhaldsframkvæmdir og ýmsar ráðstafanir sem þoli ekki bið. Aðrar ráðstafanir, s.s. framkvæmdir sem eru verulegar hvað varðar kostnað, umfang og óþægindi, þurfi hins vegar að bíða með milli funda.