Með átakinu eru landsmenn hvattir til þátttöku í stórum sem smáum verkum og til að beina viðskiptum sínum að innlendri vöru og þjónustu, fjárfesta í viðhaldi íbúðarhúsnæðis/sumarhúsa og leggja þar með sitt af mörkum til atvinnusköpunar á Íslandi.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að framlengja átaksverkefnið „Allir vinna“, en fjármálaráðuneytið segir að verkefnið sé hluti af aðgerðum stjórnvalda til að létta undir með heimilum landsins.
Þetta þýðir að endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðar-, frístundahúsnæði og húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga ekki falla niður um áramót líkt og til stóð. Það mun því standa landsmönnum til boða á næsta ári.
Allir vinna er hvatningarátak um atvinnuskapandi framkvæmdir til að vekja athygli á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús þegar unnið er að viðhaldi eða endurbótum á húsnæðinu á byggingarstað.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna kynnti átakið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins í júlí 2010.
Með átakinu eru landsmenn hvattir til þátttöku í stórum sem smáum verkum og til að beina viðskiptum sínum að innlendri vöru og þjónustu, fjárfesta í viðhaldi íbúðarhúsnæðis/sumarhúsa og leggja þar með sitt af mörkum til atvinnusköpunar á Íslandi.
100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við eigið húsnæði ýtir undir að viðhaldsverkefni af þessu tagi séu uppi á borðinu en átak til að stemma stigu við svartri vinnu er eitt af sameiginlegum hagsmunamálum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
4/10/2013 – mbl.is/Ómar