Eignaumsjón hefur stofnað sameiginlegt lóðafélag fyrir byggingaraðila Eskiáss 1-10 í Garðabæ þar sem er verið að byggja 276 íbúðir í níu fjölbýlishúsum. Jafnframt hefur félagið gert þjónustusamning við húsfélagið Eskiás 1 um húsfélagsþjónustu.
Eskiás 1-10 er ný gata á grónum stað í Ásahverfinu í Garðabænum, skammt frá skólum, leikskólum, íþróttasvæði og verslunarkjarna í miðbæ Garðabæjar. Það er félagið Eskiás ehf. sem stendur að framkvæmdunum og var fyrsta skóflustunga tekin um mitt ár 2021. Þegar er búið að byggja og selja fyrstu þrjú fjölbýlishúsin, Eskiás 1, 2 og 4 og framkvæmdir eru komnar vel á veg við Eskiás 3.
Hönnun lóðar og bílastæða er samtvinnuð hönnun Garðabæjar á Eskiásgötunni, sem er svokölluð bæjargata. Öll bílastæði við Eskiás verða ofanjarðar og sameiginleg með öllum húsunum, sem eykur samnýtingu stæðanna. Gert er ráð fyrir fjölda rafhleðslustæða og möguleikum til að auka fjölda þeirra þegar þörf krefur.
Lóðarfélagið gætir sameiginlegra hagsmuna allra
„Það er mjög ánægjulegt að koma að þessu áhugaverða verkefni og geta lagt þeim Eskiássmönnum lið við stofnun lóðafélagsins,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
„Hlutverk og tilgangur lóðafélagsins er að halda utan um rekstur sameiginlegra lóða eigenda, þannig að þær fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigendanna. Þannig gætir lóðafélagið sameiginlegra hagsmuna eigenda og samhæfir allt viðhald, umhirðu og aðbúnað á lóðunum, svo nýting þeirra og rekstur verði ávallt með sem hagkvæmustum hætti.“
Fjölbýlishúsin við Eskiás 2 og 4 eru í eigu og rekstri leigufélags en nýlega var gengið frá samkomulagi um að húsfélagið í Eskiási 1 verði í húsfélagsþjónustu hjá Eignaumsjón.
Fjármál, fundir og þjónusta
„Í því felst m.a. að við sjáum um fjármála húsfélagsins, bæði innheimtu og greiðslu reikninga, færum bókhald og gerum ársreikninga, rekstrar- og efnahagsreikninga,“ segir Páll.
„Jafnframt önnumst við undribúning aðalfunda með stjórn húsfélags, sjáum um boðun, fundahald, fundarstjórn og ritun ásamt gerð kostnaðar- og húsgjaldaáætlana og réttri skiptingu húsgjalda samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
Við aðstoðum einnig húsfélög í þjónustuleið 3 við útvegum þjónustu og tilboða, s.s. í þrif, sorp- og garðumsjón, snjómokstur og tryggingar, svo eitthvað sé nefnt. Enn fremur útvegum við iðnaðarmenn á góðum kjörum í smærri viðhaldsverkefni, veitum ráðgjöf til eigenda um réttindi þeirra og skyldur, aðstoðum við úrlausn ágreiningsmála og ráðleggjum húsfélögum og stjórnum um smærri sem stærri viðhaldsframkvæmdir.“
Nánari upplýsingar um uppbygginguna við Eskiás 1-10 er að finna á https://eskias.is/