Asparfell 2-12 – eindreginn stuðningur við framkvæmdir
Í framhaldi af einhliða og villandi umræðu um framkvæmdir í einu stærsta fjölbýlishúsi landsins er nauðsynlegt að koma því á framfæri að húsfélagsfundur sem haldinn var í gærkvöldi samþykkti framkvæmdirnar með 90% atkvæða, 134 voru þeim samþykkir en aðeins 10 voru andvígir.
Stjórn húsfélagsins fékk mikinn stuðning og þakklæti fyrir sín störf en hún hefur setið undir gagnrýni nokkurra eigenda, verið hótað persónulegum ábyrgðum og enn fremur hafa fyrirtæki sem aðstoða húsfélagið við verkefnið, s.s. Eignaumsjón, Verksýn og verktakar, verið borin þungum sökum.
Á fundinum kom fram mikil samstaða meðal eigenda í húsinu um viðhaldsframkvæmdir sem voru fyllilega tímabærar. Þetta mál sýnir að þegar fjallað er um verkefni af þessu tagi verður að kalla eftir sjónarmiðum áður en einhliða málflutningur er borinn á borð.