Samþykkt hefur verið á Alþingi, í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, að framlengja átakið ALLIR VINNA fram á mitt næsta ár í aðeins breyttri mynd. Eignaumsjón fagnar þessari ákvörðun sem vonandi tryggir að húsfélög, sem lent hafa í vandræðum með framkvæmdir vegna tafa á aðföngum af völdum COVID-19, nái að ljúka framkvæmdum innan framlengds gildistíma átaksins.
Efnt var til átaksins á fyrri hluta ársins 2020 sem hluta af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum COVID-19 á efnahagslífið. Átakinu átti að ljúka nú um áramótin en samkvæmt tillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar við afgreiðslu bandormsins svokallaða, sem hefur að geyma ýmsar breytinga á lögum í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, hefur nú verið samþykkt að framlengja átakið en þó í aðeins breyttri mynd.
Framlenging vegna íbúðarhúsnæðis gildir til ágústloka
Full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis, er framlengd til og með 31. ágúst 2022 en eftir þann tíma, frá og með 1. september 2022, skal endurgreiðslan miðast við 60%.
Jafnframt er 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts framlengd af vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis og húsnæði í eigu sveitarfélaga, sem og vinnu við hönnun og eftirlit með byggingum, endurbótum og viðhaldi frístundahúsnæðis, ásamt vinnu manna vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Gildistími þessara ívilnana er til og með 30. júní 2022 og falla þær því niður frá og með 1. júlí 2022.
Það var hins vega ekki samþykkt að framlengja ívilnanir vegna 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða réttingar fólksbifreiða. Falla þær niður frá og með 1. janúar 2022.
Ánægjuleg niðurstaða Alþingis og stjórnvalda
„Þessi framlenging átaksins ætti að tryggja að húsfélög, sem sáu fram á að geta ekki lokið umfangsmiklum viðhaldsframkvæmdum nú fyrir áramót vegna tafa af völdum COVID-19, geti nú lokið þeim á gildistíma framlengingarinnar og þar með vonandi innan þess fjárhagsramma sem búið var að samþykkja með tilliti til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Það er mjög ánægjulegt að Alþingi og stjórnvöld skuli hafa hlustað á raddir okkar sem hvöttum til framlengingar átaksins ALLIR VINNA. Við höfum verið leiðandi í yfir 20 ára í þjónustu við húsfélög fjöleignarhúsa og ég fullyrði að þessar skattaívilnanir hafa skilað fjölmörgum eigendum íbúðarhúsnæðis í fjöleignarhúsum verulegum ávinningi, ekki síst í eldra húsnæði þar sem ráðist hefur verið í löngu tímabært viðhald og endurbætur sem má beinlínis rekja til minni framkvæmdakostnaðar vegna átaksins ALLIR VINNA.“