Nú er árið að styttast verulega í annan endann og um áramótin tekur í gildi breyting á endurgreiðsluhlutfalli á virðisaukaskatti.
Eins og komið hefur fram hér á síðunni okkar og víðar þá mun endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts aðkeyptrar vinnu til viðhalds íbúðarhúsnæðis lækka úr 100% í 60% þann 1. janúar 2015.
Þetta mun hafa talsverð áhrif á endanlegan kostnað íbúðareigenda við viðhaldsframkvæmdir á sínu íbúðarhúsnæði. Við höfum reiknað það svo að þessi lækkun á endurgreiðslu á virðisaukaskatti þýðir í raun 6-8% hækkun á kostnaði viðhaldsframkvæmda fyrir íbúðareigendur. Þetta kemur því illa við fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir húsfélaga.
Fjölmörg húsfélög standa frammi fyrir stórum viðhaldsframkvæmdum. Einnig höfum við fundið fyrir verulega auknum þunga í viðhaldsframkvæmdum hjá nýjum viðskiptavinum okkar. Sum húsfélög hafa frestað viðhaldi undanfarin ár en eru nú að feta fyrstu skrefin í viðhaldi á ytra byrði með faglegri leiðsögn Eignaumsjónar. Það er mikilvægt fyrir húsfélög að taka þessi fyrstu skref á réttan hátt, ákvarðanataka í viðhaldsverkefnum getur verið snúin og húsfélög hafa fundið hjá Eignaumsjón þann faglega stuðning sem getur reynst nauðsynlegur.