Reykjavíkurborg ætlar að hefja innleiðingu breyttrar sorphirðu í maí á næsta ári og á henni að vera lokið í október. Nú standa yfir útboð hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirhugaðra tunnuskipta og annarra breytinga sem fara þarf í til að mæta ákvæðum nýrra laga um hringrásarhagkerfi, sem Alþingi samþykkti árið 2021 og taka þau gildi nú um áramótin.
Lögin kveða m.a. á um að skylt verði að safna við heimili lífrænum eldhúsúrgangi, til viðbótar við söfnun á plasti, pappír/pappa og almennu sorpi. Samhliða gildistöku laganna verður líka öll flokkun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu samræmd.
Á kynningarfundi fyrir formenn og stjórnir húsfélaga, sem Eignaumsjón stóð fyrir í liðinni viku með fulltrúum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SORPU og Reykjavíkurborg, kom fram að innleiðingin í Reykjavík muni fara fram samkvæmt ákveðinni forskrift um fjölda íláta sem þarf við hvert hús miðað við fjölda íbúa. Tunnuskiptin byrja í maí á næsta ári þegar verktakar á vegum borgarinnar byrja að fara í hvern borgarhluta á fætur öðrum til að skipta út ílátum og endurnýja úr sér gengin ílát ef þarf. Borgarhlutarnir eru níu talsins og er gert er ráð fyrir að tunnuskiptin taki að jafnaði þrjár vikur í hverjum borgarhluta og þeim að vera lokið í október.
Sorplosun á tveggja vikna fresti
Strax að loknum tunnuskiptum í hverjum borgarhluta tekur nýja sorphirðukerfið gildi með vikulegri losun. Aðra vikuna verður hirt almennt sorp og lífrænn úrgangur en hina vikuna pappír/pappi og plast.
Nýju tunnunum fylgja jafnframt þar til gerðar körfur til að hafa innanhúss undir bréfpoka fyrir lífrænan úrgang. Bréfpokunum verður svo safnað í lífrænu tunnuna. Fram kom á kynningarfundinum að fyrst um sinn verði bréfpokarnir afhentir íbúum ókeypis.
Allmörg húsfélög í Reykjavík hafa komið sér upp djúpgámum og kom fram á fundinum að lítið mál yrði að aðlaga djúpgámana að nýja flokkunarkerfinu. Frá upphafi hafi verið gerð krafa um fimm flokkunarlínur fyrir djúpgáma í borginni og því þurfi einungis að breyta merkingum á þeim , til samræmis við nýjar flokkunarkröfur.
Sorpgeymslan og sporrennan
Margir hafa áhyggjur af takmörkuðu rými í sorpgeymslum með tilkomu lífrænu tunnunnar en bent var á það á fundinum að aukin flokkun og skil á grenndarstöðvar ætti að draga úr þörf fyrir almennar sorptunnur. Jafnframt verður boðið upp á fleiri stærðir á gráum tunnum fyrir almennt sorp. Þar á meðal er nýtt 370 lítra ílát, sem er tæplega þriðjungi stærra en venjuleg grá tunna sem tekur 240 lítra og töluvert minna um sig en stóru 660 lítra sorpkerin.
Á fundinum kom líka fram að það sé á valdi húsfélaga þar sem er sorprenna að ákveða hvort henni verði lokað eða hún notuð áfram. Ef sorprennan verði áfram í notkun fari best á því að vera með gráa tunnu fyrir almennt sorp undir rennunni, ekki lífrænu tunnuna.
Almennt er horft til þess hjá Reykjavíkurborg að íbúar og húsfélög þurfi að gera sem minnst vegna innleiðingar nýja sorphirðukerfisins. Voru stjórnir húsfélaga hvattar til þess að láta reyna á nýja kerfið áður en farið væri að huga að breytingum. Þar sem ekki yrði komist hjá því að breyta sorpgeymslum eða koma upp nýrri aðstöðu þyrfti byggingarleyfi og voru þeir sem teldu vera þörf á breytingum hvattir til að hafa samband við borgina á netfanginu sorphirda@reykjavik.is.
Gjaldskrá hvetji til sorpflokkunar
Loks skal nefnt að fram kom á fundinum að gjaldskrá vegna sorphirðu verði notuð sem „hvati til að auka sorpflokkun“. Gjöldin muni lækka hjá þeim sem eru duglegir að flokka en gjöld vegna óflokkaðs sorps – „sóðatunnunnar“ – muni hækka en ekki liggur enn fyrir hve mikil hækkun verður.