Um áramót var Eignaumsjón búin að sækja um endurgreiðslu viðrisaukaskatts að upphæð 375 milljónir króna fyrir hönd húsfélaga í þjónustu félagsins vegna endurbóta, viðhalds og reksturs í tengslum við átakið Allir vinna. Þá eru nokkrar umsóknir enn í vinnslu en til samanburðar má nefna að endurgreiðslur á virðisaukaskatti til húsfélaga hjá Eignaumsjón allt árið 2019 samtals 169 milljónum króna.
Það er ljóst að átakið Allir vinna er að skila árangri og margir að nýta sér það vegna framkvæmda, viðhalds og þrifa.
Átakið í gildi til ársloka 2021
Í haust var áætlað að umsóknir um vsk-endurgreiðslur fyrir hönd húsfélaga hjá Eignaumsjón myndu verða um 300 milljónir króna á árinu en sú tala er nú komin í um 375 milljónir króna en nokkrum umsóknum er enn ólokið. Þá er viðbúið að mörg félög muni einnig nýta sér þessa endurgreiðslumöguleika í ár en tilkynnt var sl. haust um framlengingu átaksins Allir vinna til ársloka 2021. Skatturinn sér um framkvæmd átaksins.
Eignaumsjón hefur árum saman gætt þess að vsk-endurgreiðslur af byggingarframkvæmdum og viðhaldi skili sér til húsfélaga í þjónustu félagsins. Nú geta húsfélög einnig fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu vegna ýmiskonar þjónustu. Má þar nefna vinnu við þrif í sameign, þrif og sótthreinsun á sorpgeymslum og sorpílátum, garðvinnu, s.s. garðslátt og runna- og trjáklippingar.
VSK-endurgreiðslur ná líka til húsumsjónar
Skatturinn féllst í haust á að hluti af vinnu við húsumsjón Eignaumsjónar falli undir ákvæði um reglubundna umhirðu íbúðarhúsnæðis. Hófst þá strax vinna við að sækja um endurgreiðslur fyrir þau hús- og atvinnufélög sem hafa valið að vera í húsumsjón Eignaumsjónar. Þjónustan felur m.a. í sér reglubundna umsjón, eftirlit og fyrirbyggjandi viðhald með sameign viðkomandi fasteignar, sem tryggir að ástand hennar er ávallt eins og best verður á kosið.