„Það er gaman að koma að þessu áhugaverða og umfangsmikla verkefni og leggja lóðarhafanum lið við að búa til samfélag íbúa og atvinnustarfsemi,“ segir Páll Þór Ármann hjá Eignaumsjón, um stofnun deildaskipts heildarhúsfélag fyrir Grensásveg 1 í Reykjavík. Þegar er flutt inn í fyrstu íbúðirnar en þar verða alls 181 íbúð ásamt skrifstofu-og verslunarstarfsemi þegar byggingarframkvæmdum lýkur.
Framkvæmdum við fyrstu 50 íbúðirnar hófust haustið 2020 og íbúar fluttu inn haustið 2022. Samtímis því tók húsfélagið til starfa. Alls verða byggðar 181 íbúð á Grensásvegi 1 í fjórum byggingum, fjögurra til sjö hæða háum, á vegum Fasteignafélagsins G1 ehf., sem er lóðarhafi.
Verslunar- og þjónusturými verða á jarðhæðum og sjö hæða skrifstofuhúsnæði í bogabyggingunni við gatnamót Suðurlandsbrautar og Grensásvegar. Sameiginlegur bílakjallari á þremur hæðum er undir húsunum og inngarður verður á milli húsanna sem nýtist bæði íbúum og starfsfólki sem vinnur í húsunum. Gangi áætlanir eftir eru verklok allra framkvæmda á Grensásvegi 1 fyrirhuguð í árslok 2024.
Hvað er deildaskipt heildarfélag?
„Í því felst að í stað þess að stofna sér húsfélög fyrir hverja af þessum fjórum byggingunum á lóðinni, með tilheyrandi fjölda stjórnarmanna og kostnaði fyrir eigendur, þá stofnum við bara eitt deildaskipt heildarfélag,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
„Heildarfélagið heldur bæði utan um hagsmuni heildarinnar varðandi ytra byrði og lóð en líka hagsmuni eigenda og notenda í hverri byggingu, þar sem eru jú bæði íbúðir og atvinnustarfsemi sem ramma þarf inn með skýrum samþykktum og uppgjörsreglum. Þannig erum við að tryggja bæði hagsmuni allra viðkomandi og náum vonandi líka að skapa jákvætt og samstíga samfélag á þessum glæsilega byggingarreit við Laugardalinn, miðsvæðis í Reykjavík,“ bætir Páll við.
Húsfélagsþjónusta Eignaumsjónar
Grensásvegur 1 er í þjónustuleið 3 hjá Eignaumsjón en grunnþjónusta félagsins við húsfélög er þríþætt:
- Í þjónustuleið 1 er haldið vel utan um fjármál húsfélagsins, bæði innheimtu og greiðslu reikninga, færslu bókhalds, ársreikninga og rekstrar- og efnahagsreikninga, svo dæmi séu nefnd.
- Í þjónustuleið 2, til viðbótar við fjármálaþjónustuna, annast Eignaumsjón líka undribúning aðalfunda með stjórn húsfélags, sér um boðun, fundahöld, fundarstjórn og ritun ásamt gerð kostnaðar- og húsgjaldaáætlana og tryggir rétta skiptingu húsgjalda samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
- Í þjónustuleið 3, til viðbótar við fjármála- og fundaþjónustu, aðstoðar Eignaumsjón húsfélög einnig við útvegum þjónustu og tilboða, s.s. í þrif, sorp- og garðumsjón, snjómokstur og tryggingar, svo fátt eitt sé nefnt. Félagið getur jafnframt útvegað iðnaðarmenn á hagstæðum kjörum í smærri viðhaldsverkefni, veitt faglega ráðgjöf til eigenda um réttindi þeirra og skyldur, aðstoðað við lagalega úrlausn ágreiningsmála og sérfræðingar félagsins ráðleggja stjórnum húsfélaga um smærri sem stærri viðhaldsframkvæmdir, fyrirkomulag hleðsluþjónustu rafbíla og annað það sem upp kemur í rekstri húsfélaga.
Hjá Eignaumsjón er einnig boðið upp á Húsumsjón, viðbótarþjónustu fyrir stærri húsfélög og atvinnuhúsnæði. Húsumsjón tryggir reglubundna umsjón með sameign fasteignar, lækkar viðhaldskostnað og sér til þess að ástand viðkomandi fasteignar verði ávallt eins og best er á kosið.
Nánari upplýsingar um uppbygginguna á Grensásvegi 1 er að finna á https://www.g1.is/.