Eignaumsjón hf., þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í málefnum og rekstri húsfélaga, var stofnað á haustdögum árið 2000 og er því 20 ára um þessar mundir. Stofnendurnir höfðu allir reynslu af að þjóna eigendum fasteigna og höfðu þeir áður rekið Ráðgjafaþjónustu húsfélaga, Húsráð, um nokkurra ára skeið.
Fyrstu árin í rekstri Eignaumsjónar einkenndust af frumkvöðlastarfi, enda þurfti félagið að móta þjónustu sína frá grunni og kynna þennan nýja valkost fyrir eigendum fasteigna. Það reyndist mikið þolinmæðisverk.
Frumkvöðlar á vettvangi húsfélaga á Íslandi
Auk ráðgjafastarfa og útvegun þjónustu- og viðhaldsaðila, varð umsjón fjármála húsfélaga grunnur í starfseminni. Sömuleiðis aðstoð við ákvarðanatöku og umsjón með fundahaldi, útgáfa húsfélagayfirlýsinga og fleira. Um tíma rak félagið tæknideild sem annaðist undirbúning og eftirlit með viðhaldi húsa.
Árið 2017 var sett á laggirnar sérstök deild sem annast rekstur atvinnuhúsnæðis og sama ár tók Húsumsjón Eignaumsjónar til starfa. „Húsvörður í hlutastarfi“ er kjarninn í þeirri þjónustu sem felst í skilvirku eftirliti með sameign hjá þeim húsfélögum sem nýta sér hana. Árið 2019 sameinaðist rekstur Húsastoða, félags sem var í sambærilegri starfsemi og Eignaumsjón, rekstri félagsins og tókst sameiningin vel og styrkti reksturinn enn frekar.
Áhersla á hverjum tíma að mæta þörfum markaðarins
Það má segja að stofnendur Eignaumsjónar hafi reynst framsýnir því á þeim 20 árum sem liðin eru hefur þjónustan sannarlega hitt í mark. Þótt hægt hafi miðað í upphafi hefur árlegur vöxtur á umsvifum verið um 20% og annast Eignaumsjón nú um 600 húsfélög og rekstrarfélög. Á bakvið þessi 600 félög eru um 12000 íbúðir/eignir og um 2000 eignir í atvinnuhúsnæði.
Frá upphafi hefur félagið lagt áherslu á að bæta og þróa starfsemina til að mæta sem best þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma. Hlutleysi í störfum og hagsmunagæsla fyrir viðskiptavini, m.a. með því að leita ávallt bestu kjara fyrir þá í krafti fjöldans hefur alla tíð verið stefna félagsins. Jafnframt hefur bæði áreiðanleiki og sýnileiki við meðferð fjármuna og lausn verkefna ávallt verið mikilvægur þáttur í þjónustu félagsins.
Í seinni tíð hefur aukin áhersla verið lögð á virka og hraða upplýsingagjöf til eigenda og stjórna húsfélaga, ásamt miðlun hagnýtra upplýsinga sem tengjast rekstri og starfsemi félaganna. Til að tryggja enn betri þjónustu, hraða og gagnsæja upplýsingagjöf hefur æ meiri áhersla verið lögð á almenna tækniþróun og aukna hæfni starfsfólks. Þar á meðal er smíði sérhannaðra upplýsingakerfa sem gegna lykilhlutverki í að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar. Nýlega var stigið mikilvægt skref til að auka og efla þjónustu félagsins enn frekar með ráðningu byggingarverkfræðings til tæknilegra og ráðgefandi starfa hjá félaginu.
Rauntímaupplýsingar aðgengilegar með einum smelli
Nýlega var tekin í notkun „Húsbók Eignaumsjónar“ sem mætti kalla afmælisgjöf félagsins til viðskiptavina! Húsbókin er aðgangsstýrð upplýsingasíða fyrir hvern eiganda í þeim húsum sem eru í þjónustu Eignaumsjónar og stjórnir viðkomandi húsfélaga. Í húsbókinni geta jafnt eigendur og stjórnir nálgast með „einum smelli“ upplýsingar um sín málefni og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum, hvenær sem þeim hentar í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.
Merki félagsins og kynningarefni hefur einnig verið uppfært í tilefni af 20 ára afmælinu en lítið hefur farið fyrir hátíðahöldum vegna samkomutakmarkana út af COVID-19. Vonandi gefst tækifæri til þess fyrr en seinna. Á meðan hefur starfsfólk Eignaumsjónar í nægu að snúast við að leysa þau fjölmörgu verkefni sem upp koma á hverjum degi á tímum kórónaveirunnar og huga samtímis að framtíð félagsins, bæði nýjungum og enn fjölþættari þjónustu. Stjórnendur og starfsfólk Eignaumsjónar horfa björtum augum á árangursríka framtíð félagsins.