Fyrsta starfsstöð Eignaumsjónar utan Reykjavíkur hefur verið opnuð á Akureyri en fyrirtækið hefur umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 fjöleignarhúsa víðs vegar um landið með yfir 20 þúsund fasteignum.
„Við erum til húsa á annarri hæð á Glerárgötu 24, beint á móti Greifanum,“ segir Halla Mjöll Stefánsdóttir ráðgjafi hjá Eignaumsjón, sem er í forsvari fyrir starfsstöðinni á Akureyri.
Yfir 20 ára þekking og reynsla
„Eignaumsjón býr að 23 ára þekkingu og reynslu í rekstri fasteigna og þjónustu við húsfélög, leigufélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Ég hef unnið hjá fyrirtækinu í um sex ár, fyrst í Reykjavík sem þjónustufulltrúi og ráðgjafi á þjónustusviði og hóf störf á Akureyri í desember 2023. Ég sinni verkefnum sem snúa að þjónustu okkar á Akureyri og norðausturhorni landsins, samhliða öðrum daglegum störfum hjá Eignaumsjón þar sem ég er í ráðgjafa- og fundateymi fyrirtækisins.“
Staðarþekking er mikilvæg
„Mjór er mikils vísir segir máltækið og vonandi að það gangi eftir um starfsstöð okkar á Akureyri,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Það hefur blundað í okkur í nokkur ár, með auknum vexti og fjölgun fjölbýlishúsa á landsbyggðinni, að taka þetta skref. Akureyri, sem stækkar jafnt og þétt, er spennandi svæði fyrir húsfélagaþjónustu og staðarþekking og meiri nánd við viðskiptavini er ávallt af hinu góða. Þegar Halla flutti til Akureyrar eftir barneignarleyfi með kærastanum sínum, þaðan sem hann er, ákváðum við að taka stökkið!“ bætir Daníel við.
„Með tilkomu starfsstöðvarinnar eigum við nú t.d. mun auðveldara með að hafa bæði umsjón með fundum hús- og rekstrarfélaga á Akureyri og víðar á Norður- og Austurlandi og útvega fundaraðstöðu, jafnframt því sem við getum líka sinnt allri annarri þjónustu við viðskiptavini þar á markvissari og persónulegri hátt.“
Halla er í daglegum samskiptum í fjarvinnu við bæði viðskiptavini og samstarfsfólk sitt fyrir sunnan og fara öll síma- og tölvusamskipti fram í gegnum þjónustuver Eignaumsjónar, í síma 585-4800 og póstfangið thjonusta@eignaumsjon.is. „Fyrir norðan get ég einnig tekið á móti viðskiptavinum og öðrum gestum á skrifstofunni á Glerárgötunni eða skotist á fundi, allt eftir því hvað hentar best,“ bætir Halla við.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón hf. tók til starfa árið 2000 og hefur umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 virkra félaga með yfir 20 þúsund fasteignum. Eignaumsjón er umsvifamesta fyrirtæki landsins á þessu sviði með 42 starfsmenn. Áhersla er lögð á að mæta þörfum eigenda fasteigna í fjölbýli með faglegri og hlutlausri nálgun og skýrum verkferlum, gæta að öryggis-, persónuverndar- og gæðamálum með það að markmiði að gera rekstur húsfélaga markvissari og hagkvæmari, auka upplýsingaflæði til eigenda/leigjenda og auðvelda störf stjórna. Sjá nánar á www.eignaumsjon.is