Eignaumsjón hefur tekið við rekstri rafhleðslukerfa fjögurra húsfélaga sem voru í þjónustu hjá N1. Þetta eru húsfélögin Berjarimi 20-28 í Reykjavík, Langalína 2 í Garðabæ, Kópavogstún 10-12 og Vallarkór 1-3, bæði í Kópavogi.
Uppsetning, rekstur og öll þjónusta tengd rafhleðslukerfum húsfélaganna fjögurra hefur verið hjá N1 en samkvæmt samkomulagi N1 og stjórna ofangreindra félaga hefur Eignaumsjón nú tekið við innheimtu og mælingu á raforkunotkun, ásamt öllum rekstri hleðslukerfanna.
Notkunarupplýsingar alltaf aðgengilegar hjá Eignaumsjón
„Þetta eru ánægjuleg skref í vaxandi þjónustu okkar við húsfélög vegna rafbílahleðslu en með því að færa sig til okkar eru stjórnir viðkomandi húsfélaga ekki síst að tryggja að upplýsingar úr rafhleðslukerfinu um notkun séu alltaf aðgengilegar öllum í húsfélaginu, bæði eigendum og stjórn,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
„Hjá okkur eru gögn og yfirlit vegna reksturs hleðslukerfa rafbíla aðgengileg í Húsbókinni, mínum síðum eigenda, á heimasíðunni okkar. Við erum ekki að selja rafmagn en við getum tryggt að viðskiptavinir okkar njóti hagstæðasta raforkuverðs á markaði á hverjum tíma. Við tryggjum líka að allar greiðslur og rukkanir berist til rétta viðtakenda og ef rafbílanotkun er innheimt með húsgjöldum, þegar húsfélagið er í húsfélagsþjónustu hjá okkur, þá lækkar kostnaður við greiðslumiðlun.“
Önnumst rekstur og innheimtu úr flestum rafbílahleðslukerfum
Innifalið í rekstri rafhleðslukerfa hjá Eignaumsjón er bæði umsjón og eftirlit með rafhleðslukerfunum, í samstarfi við þjónustuaðila. Álestur er sjálfvirkur og til viðbótar við innheimtu úr kerfum sem N1 hefur sett upp, getur Eignaumsjón tekið að sér rekstur og innheimtu úr flestum rafbílahleðslukerfum sem starfrækt eru hérlendis, að því gefnu að þau séu að fullu snjallvædd og uppfylli samhæfingarstaðla.