Eignaumsjón hefur tekið að sér rekstur Leigufélags aldraðra sem á og rekur húseignir í Reykjavík og á Akranesi. Alls er um 82 íbúðir að ræða, 51 íbúð í útleigu í tveimur húsum við Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík og 31 íbúð í byggingu á Dalbraut 6 á Akranesi.
Samkvæmt samkomulaginu tekur Eignaumsjón að sér hlutverk framkvæmdastjóra Leigufélags aldraðra, verður skrifstofa leigufélagsins og sér um fjármál og daglegan rekstur þess. Samkomulagið felur einnig í sér að Eignaumsjón mun annast húsumsjón, sem felur m.a. í sér reglubundið eftirlit með sameignum, bæði í Vatnsholti 1-3 og á Dalbraut 6, þegar útleiga íbúða hefst þar.
„Það er ánægjulegt að ganga til samstarfs við jafn reynslumikið fyrirtæki og Eignumsjón um daglegan rekstur Leigufélags aldraðra, sem léttir okkar störf og skapar stjórninni aukið svigrúm til að vinna að langtímamarkmiðum félagsins – sem er að útvega félagsmönnum okkar hentugt húsnæði til leigu,“ segir Jóhann G. Ásgrímsson, stjórnarformaður Leigufélags aldraðra.
„Við þökkum það traust sem okkur er sýnt með þessu samkomulagi en um er að ræða stærsta einstaka samning sem Eignaumsjón hefur gert. Fjölhæfni okkar nýtist vel til að takast á við þetta verkefni, bæði framkvæmdastjórnina í samvinnu við stjórnina og umsjón með fjárreiðum, þ.e. gjaldkerastörf, bókhald, áætlanagerð og greiningar, ásamt eftirliti með umgengni og ástandi húsanna. Við hlökkum til samstarfsins sem ég vona að verði bæði farsælt og ánægjulegt,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Um Leigufélag aldraðra
Leigufélag aldraðra hses. var stofnað árið 2018 af Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) og starfar samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir. Félagið er óháð rekstri og stjórnun FEB en samkvæmt skilmálum geta þó einungis félagar í FEB verið leigjendur hjá félaginu.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón hf. býr að 23 ára þekkingu í rekstri fasteigna og þjónustu við húsfélög, leigufélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Fyrirtækið hefur umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 virkra félaga með yfir 20 þúsund fasteignum og er umsvifamesta fyrirtæki landsins á þessu sviði. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda/leigjenda og auðvelda störf stjórna.