Emil Hilmarsson hefur verið ráðinn upplýsingatæknistjóri Eignaumsjónar, sem er nýtt starf hjá félaginu og hefur hann yfirumsjón með tölvutæknimálum fyrirtækisins.
Á ábyrgðarsviði upplýsingatæknistjóra er rekstur tölvu- og netkerfis Eignaumsjónar, þar á meðal umsjón með hugbúnaði, þróun, nýsköpun og framsetningu gagna, s.s. fyrir Húsbók sem er aðgengileg öllum viðskiptavinum félagsins. Upplýsingatæknistjóri sér einnig um uppfærslu á vélbúnaði starfsfólks og kennslu og tekur þátt í vinnu við tölfræði, gæðamál og annað er lítur að tölvutækni í starfsemi fyrirtækisins.
Emil er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Áður en hann kom til Eignaumsjónar var hann deildarstjóri upplýsingatæknideildar Norðuráls í 24 ár, allt frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1998. Þar áður var hann kerfistjóri og forritari hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavik í sex ár og forritari hjá Hug hf. í fjögur ár. Samhliða námi og vinnu hefur Emil sinnt stundakennslu í tölvunarfræði í nokkrum mennta- og fjölbrautaskólum í Reykjavík.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 22 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið er að vinna fyrir um 800 hús- og rekstrarfélög með hátt í 18.000 íbúðum/eignum og starfsmenn eru nú 33 talsins. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.