Eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur nú yfir 31 árið í röð, þar sem slökkviliðsmenn um allt land heimsækja grunnskóla og fræða átta ára nemendur um eldvarnir, mikilvægi reykskynjara og flóttaleiðir. Markmið átaksins er vekja athygli á eldvörnum og öryggi á heimilum. Sem fyrr er höfuðáhersla lögð á mikilvægi reykskynjara.
Brunavarnir eru lykilatriði í öryggi allra fjöleignarhúsa og mikilvægt að huga stöðugt að brunavörnum til að stuðla að öryggi íbúa. Mörg dæmi eru um að aukin hætta hafi skapast í eldsvoðum, bæði vegna þess að öryggismálum hafi ekki verið sinnt sem skyldi og einnig vegna slæmrar umgengni í sameign sem torveldaði umferð slökkviliðsmanna og annarra.
Eldvarnir í forgangi
Í húsfélögum sem eru í Húsumsjón hjá Eignaumsjón er farið reglulega yfir eldvarnir viðkomandi húsnæðis í hverri heimsókn húsumsjónarmanna, samkvæmt lista frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þetta er á meðal þess sem er kannað:
- Eru flóttaleiðir greiðfærar?
- Eru útljós sílogandi og sýnileg?
- Eru dyr og björgunarop opnanleg innan frá án lykils eða verkfæra?
- Eru slökkvitæki, eldvarnateppi og brunaslöngur aðgengileg og í lagi?
- Lokast brunadyr hindrunarlaust og eru pumpur virkar?
- Sýnir brunaviðvörunarkerfi „í lagi“ og eru stakir reykskynjarar virkir?
- Er umgengni góð, ruslsöfnun í lágmarki innan húss og utan og allt umfram rusl fjarlægt?
Jafnframt er alltaf minnt á að slökkvitæki á ekki að nota sem hurðastoppara. Þau eiga alltaf að vera á réttum stöðum, tilbúin til notkunar ef til eldsvoða kemur!
Tímabil kertaljósa að ganga í garð
Í lokin er líka rétt að minna á að nú styttist í að aðventan gangi í garð. Þá stinga margir jólaseríum í samband, bæði utan- og innandyra og kveikja á kertum. Mikilvægt er því að fara vel yfir ástandið á gömlum fjöltengjum og jólaseríum og nota bara það sem er í góðu lagi. Það þarf líka að fylgjast vel með kertaskreytingum og passa vel upp á að kertaljós séu ekki nálægt gluggatjöldum eða öðru sem kviknað getur í.