Ágústa Katrín Auðunsdóttir hefur stýrt fjármálasvið Eignaumsjónar í tæp þrjú ár en hún kom til starfa hjá félaginu haustið 2017 sem sérfræðingur á fjármálasviði og gjaldkeri.
„Þegar ég byrjaði voru sjö starfsmenn á fjármálasviði og hús- og rekstrarfélögin rétt um 300 í þjónustu hjá okkur. Nú, tæpum fimm árum síðar, eru starfsmenn sviðsins 14 talsins og félögin ríflega 700,“ segir Ágústa. Hún bætir við að á undanförnum árum hafi félögin líka almennt orðið stærri og flóknari og til að mæta þessum áskorunum hafi Eignaumsjón stækkað og verklag þróast yfir í æ meiri teymisvinnu, bæði innan og milli sviða.
Fjármálin eru grunnurinn
„Fjármálin, sem eru grunnurinn í þjónustu okkur, þurfa að vera bæði traust og skilvirk því félagið passar upp á að allir reikningar séu greiddir í tíma, annast útsendingu hús- og framkvæmdagjalda og vinnur árs- og kostnaðaruppgjör og áætlanir fyrir félögin,“ segir Ágústa. „Við sækjum líka um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu fyrir viðskiptavini, pössum upp á að kostnaðarskipting félaga sé í samræmi við lög og aðstoðum með innheimtu og framkvæmdauppgjör á stærri viðhaldsframkvæmdum, svo fátt eitt sé nefnt.“
Í dag starfar fjármálasviðið í fjórum teymum; gjaldkera-, bókhalds-, innheimtu- og fjármálateymi og mikil áhersla er lögð á aðskilnað bókhalds og gjaldkera. Bókhaldið hefur enga greiðsluaðganga og gjaldkerar hafa enga bókunaraðganga.
„Ég var ráðin til félagsins sem sérfræðingur og gjaldkeri og sinnti þá bæði gjaldkerastörfum og ýmsum öðrum sérhæfðari verkefnum, s.s. áætlunar- og greiningarvinnu, en með teymaskiptingunni er í dag alveg skilið á milli þessara verkefna. Lykillinn að teymaskiptingunni hjá Eignaumsjón er svo miðlægt verkbókhald, sem er sérhannað fyrir okkar starfsemi. Þar skráum við og sjáum öll samskipti og verkefni fyrir okkar viðskiptavini, sem tryggir eftirfylgni verkefna og auðveldar jafnframt yfirsýn og afleysingar á milli teyma, ef þess er þörf. “
Alltaf stefnt á fjármál og bókhald
Ágústa er fædd og uppalin á kúabúi undir Eyjafjöllum og fór snemma að sinna sveitastörfum. Hún byrjaði skólagöngu sína í Seljalandsskóla, því næst lá leiðin í grunnskólann á Holsvelli og þaðan í Menntaskólann í Kópavogi á viðskipta- og hagfræðibraut, svo segja má að hugur hennar hafi alltaf stefnt á fjármála- og bókhaldstengd störf. Ágústa lauk BSc námi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á reikningshald og tók í framhaldinu master í fjármálum fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík.
„Samhliða náminu í viðskiptafræðinni vann ég í tvö sumur í bókhaldinu hjá Lyfju og hóf svo störf hjá Nordic Visitor á síðasta árinu í HÍ. Fyrsta árið þar var ég í bókhaldinu en vann mig svo upp í sérfræðistarf á fjármálasviðinu, mest við rekstrar- og sölugreiningar fyrir stjórnendur, ásamt mánaðarlegri uppgjörsvinnu og kostnaðar- og gæðaeftirliti“ segir Ágústa og bætir við að þessi reynsla nýtist vel í starfi hennar í dag.
Ágústa fer líka reglulega á námskeið til að halda við starfsþekkingu sinni og aðspurð, hvað sé skemmtilegast í vinnunni svarar hún strax: „Fyrst og fremst fólkið sem ég vinn með! Þetta er frábær hópur, 21 kona og 9 karlar. Síðan eru verkefnin bæði krefjandi og skemmtileg og alltaf nýjar og skemmtilegar áskoranir til að fást við.“
Matur, bakstur og ferðalög
Undanfarin 12 ár hefur Ágústa búið í Hafnarfirði með sambýlismanni sínum Brynjari, en þegar frumburðurinn Kári kom í heiminn fyrir tæpu ári þurftu þau að stækka við sig og eru nýlega flutt í Kópavoginn.
Aðspurð um áhugamál nefnir Ágústa matargerð, bakstur og ferðalög þegar tími gefst til, bæði heima og erlendis. „Sumarfríið hjá okkur er reyndar enn óráðið en eins og hjá mörg þúsund öðrum Íslendingum er stefnan tekin á Tenerife um páskana með fjölskyldunni!“