Díana Íris Guðmundsdóttir hefur starfað í rúm tvö ár í þjónustuveri Eignaumsjónar og sinnir erindum frá stjórnum hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón og eigendum einstakra íbúða og eigna.
„Eignaumsjón er stækkandi fyrirtæki með einkunnarorðin gott viðmót, þekking og skilvirkni og ég get staðfest að nákvæmlega þannig vinnum við,“ segir Díana en hún er ein af sjö starfsmönnum þjónustuversins sem annast öll almenn erindi sem berast á hverjum degi, ýmist í tölvupósti, netspjalli, símtölum eða heimsóknum á skrifstofu félagsins að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík.
Frábær vinnustaður með yndislegu starfsfólki
„Eignaumsjón er frábær vinnustaður með yndislegu starfsfólki og það eru forréttindi að fá að mæta þar til vinnu á hverjum degi. Ég þarf að takast á við bæði fjölbreytt og mjög ólík verkefni, sem er það skemmtilega við starfið því maður lærir alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi.“
Díana er „Kópavogsmær í húð og hár, eins og hún orðar það. Hún gekk í Smáraskóla og síðan MK og Fjölbraut í Garðabæ og lauk BA í félagsráðgjöf frá HÍ árið 2013, með millilendingu í Englandi í eitt ár þar sem hún vann sem aupair en tók líka samhliða nokkra áfanga í fjarnámi í HÍ.
„Áður en ég kom til Eignaumsjónar í janúar 2019 starfaði ég sem flugfreyja hjá WOW air og bæði sú reynsla og námið í háskólanum nýtist vel í starfi mínu við að þjónusta húsfélög með ýmis verkefni sem tengjast starfsemi þeirra.“
Lífið utan vinnu er fjölskyldan
„Líf mitt utan vinnu er fjölskyldan. Við reynum að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt um helgar. Bestu helgarnar eru þegar við förum í sumarbústað, annað hvort til foreldra minna eða tengdaforeldra og getum verið í sveitasælunni þar sem börnin geta leikið sér úti og við erum í rólegheitum að safna orku fyrir næstu vinnuviku,“ segir Díana sem á tvö börn með sambýlismanni sínum, 2ja og 5 ára og 11 ára stjúpson. Þau búa auðvitað í Kópavogi, í Kórahverfinu.
Aðspurð hvað eigi að gera í sumarfríinu segist hún ætla í frí í júlí, þegar börnin eru í sumarfríi og planið sé að gera eitthvað skemmtilegt saman og njóta samverunnar, bæði hér heima á fótboltamótum og fleiru. Jafnvel verður farið til útlanda ef aðstæður leyfa.
„Ég var í fæðingarorlofi í fyrra en í sumarfríinu fórum við hringinn í kringum landið með börnin okkar og heimsóttum marga staði sem við höfðum aldrei komið á. Við fórum líka á fótboltamót hjá elsta stráknum okkar í Vestmannaeyjum og á Akureyri og vorum líka mikið uppi í sumarbústað. Sumarið í fyrra var dásamlegt og vonandi verður það eins þetta árið!“