„Það er skemmtilegast að heyra frá ánægðum viðskiptavinum,“ segir Guðbrandur Óli Albertsson, kallaður Brandur í daglegum samskiptum, aðspurður um hvað honum finnist skemmtilegast í vinnunni hjá Eignaumsjón. „Það er líka gaman kl. 14:45 á föstudögum þegar ég hef náð að klára verkefnalista vikunnar,“ bætir Brandur kankvís við en hann hefur nú starfað hjá félaginu í rúmt ár í húsumsjón.
„Ég ferðast um borg og bí og hef eftirlit með ástandi sameigna þeirra húsfélaga sem eru í húsumsjón hjá okkur,“ segir Brandur,. Hann fór á sínum tíma í húsasmiðinn í Tækniskólanum og er líka með bæði vélavarðar- og vinnuvélaréttindi, meiraprófið og hefur verið formaður í ungmennafélagi í nokkur ár og björgunarsveitarmaður í nærri þrjá áratugi.
Í mörg horn að líta í húsumsjóninni
„Þessi reynslubanki nýtist vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem þarf að sinna á hverjum degi í húsumsjóninni,“ bætir Brandur við. „Ég er mikið í að stilla hurðarpumpur og hurðir, skipta um reykskynjara, endurræsa brunakerfi og koma með ábendingar til stjórna hjúsfélaga um það sem betur má fara. Við höfum líka eftirlit með vinnu verktaka í umboði hússtjórna, þegar sinna þarf umfangsmeiri viðhaldssverkefnum. Við fylgjumst einnig með almennri umgengni, höfum eftirlit með niðurföllum, tínum rusl á lóðum og í bílageymslum, auk fjölmargra annarra verkefna sem koma daglega inn á borð til okkar.“
Húsumsjóninni, sem er sérsniðin þjónustuleið fyrir stærri hús- og atvinnufélög, hefur vaxið fiskur um hrygg frá því að byrjað var að bjóða upp hana fyrir fimm árum. Þá sinnti einn starfsmaður öllum útköllum en nú eru starfsmenn fasteignasviðsins þrír talsins. Aðspurður segir Brandur að helstu áskoranir í starfinu sé að læra á flókinn búnað í nýrri fjölbýlishúsum. „Þar eru líka margs konar kerfisstýringar sem þarf að hafa reglulegt eftirlit með, svo sem hitakerfi, aðgangskerfi, þjófavarnarkerfi, snjóbræðslur og fleira.“
Starfinu fylgja líka skemmtileg samskipti og stundum krefjandi, bæði við hússtjórnir og íbúa. Spurður um reynslusögur nefnir Brandur t.d. að hann hafi aðstoðað lögregluna við að leita að manni sem flúði af þaki byggingar niður um fimm hæða lagnastokk. „Hann náðist síðan í brunnholu í kjallaranum, hreinn og fínn!“
Strandamaður og jeppakall
„Ég er Strandamaður frekar en eitthvað annað,“ segir Brandur sem er fæddur á Eskifirði en ólst upp norður í Árneshreppi á Ströndum frá sex ára aldri. Hann býr í 105 Reykjavík í dag með konu og tveimur stjúpdætrum. Tímann utan vinnu notar Brandur til að vera með fjölskyldu og vinum.
„Skemmtilegast finnst mér að ferðast um hálendið á mínum 38“ jeppa og dytta að honum og laga þegar þarf. Við förum líka mikið á skíði og vélsleða, enda hef ég gaman af allri útiveru og hreyfingu, þannig að áhugamálin vantar ekki.“