Þjónustuver Eignaumsjónar hefur heldur betur styrkt starfsemi félagsins á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá því það var sett formlega á laggirnar í árslok 2018. Hanna Sigríður Stefánsdóttir hefur verið hópstjóri í þjónustuverinu frá upphafi en hún hóf störf hjá Eignaumsjón fyrir bráðum fjórum árum.
Það er í mörg horn að líta á hverjum degi hjá þjónustuverinu við að sinna erindum frá stjórnum hús- og rekstrarfélaga í umsjón Eignaumsjónar og frá eigendum einstakra íbúða eða eigna. Þjónustuverið annast líka öll samskipti við þá fagaðila sem eru að þjónusta hús- og rekstrafélögin á vegum félagsins. Jafnframt sinnir þjónustuverið öllum almennum erindum sem berast á hverjum degi, ýmist í tölvupósti, netspjalli, símtölum eða þá í heimsóknum á skrifstofu félagsins á Suðurlandsbraut 30.
Stóraukin rafræn samskipti
„Við erum öflugur hópur í þjónustuteyminu, sex konur og einn karlmaður, þar sem hver og einn fær tækifæri til að nýta sína styrkleika,“ segir Hanna. Hún sér einnig um gerð og skráningu leigusamninga hjá Eignaumsjón, sinnir þjálfun nýs starfsfólks, tilboðsgerð vegna þjónustuverkefna, tjóna- og tryggingamála, innkaup og fleiri daglegum og á tíðum fjölbreyttum verkefnum sem þarf að leysa.
„Þau geta orðið nokkur skrefin yfir daginn sem ég hleyp á milli samstarfsmanna vegna úrvinnslu mála og verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Helstu áskoranirnar undanfarið ár hjá okkur, eins og öllum öðrum fyrirtækjum, hafa tengst COVID. Öll rafræn samskipti hafa t.d. stóraukist en sem betur fer vorum við nýlega búin að taka í gagnið nýja þjónustu- og upplýsingagátt, Húsbókina okkar, og netspjall sem hafa komið að góðum notum í samskiptum við viðskiptavini, ásamt tölvupósti og auðvitað símanum,“ segir Hanna og bætir við að mikið sé lagt upp úr því að þessar samskiptaleiðir séu alltaf virkar og verkum sem sinna þarf fyrir húsfélögin sé ávallt vel sinnt.
Alltaf að læra eitthvað nýtt
„Það eru ekki síst hressir viðskiptavinir og góðir samstarfsfélagar sem gefa vinnunni gildi, enda er þjónustuverið oftast fyrsta snerting Eignaumsjónar við viðskiptavinina. Við leggjum okkur fram öllum stundum við að tryggja ánægjulega og upplýsta þjónustu, enda ánægður viðskiptavinur verðmætur hverju fyrirtæki,“ segir Hanna sem er með fjölbreyttan starfsferil að baki. Hún kom til Eignaumsjónar frá Sjóvá tryggingarfélagi og vann þar áður í nokkur ár hjá Korta og Læknastöð Glæsibæjar. Þá hefur hún einnig starfað við sjávarútveg í Afríku og var au pair í Bandaríkjunum.
„Ég er Reykvíkingur, fædd og uppalin í Bústaðahverfinu, gekk í Réttarholtsskóla en flutti í Mosfellsbæ fyrir áratug. Ég er gift, á einn son og þrjú stjúpbörn og er amma tveggja yndislegra stúlkna,“ svarar Hanna þegar hún er spurð um búsetu og fjölskylduhagi.
Elskar að elda, veiða og ferðast!
Aðspurð um áhugamál og lífið utan vinnunnar segist hún alltaf hafa langað til að verða kokkur. „Mér þykir virkilega gaman að matbúa en, elda aldrei eftir uppskriftum og er dugleg að rækta vinskap við vini mína sem afþakka aldrei matarboð hjá mér“, segir Hanna hlæjandi og bætir við að hún sé mikil kjötæta og snæði kjöt í nánast öll mál, vinnufélögunum til mikillar skemmtunar þegar eitthvað óhefðbundið ratar upp úr nestisboxinu. „Mér þykir líka gaman að veiða og hjóla og hef m.a. farið í hjólaferðir til bæði Spánar og Króatíu með vinkonum mínum, þar sem við hjóluðum í fallegu landslagi og sigldum á milli eyja.“
Í gegnum árin hefur Hanna ferðast mikið erlendis og þykir skemmtilegt að heimsækja Pólland, þar sem þau hjónin eiga vinafólk. „Það fór nú lítið fyrir sumarfríi þetta árið eða ferðalögum erlendis vegna COVID en ég náði þó að skella mér í góða helgarferð með vinkonum mínum út á land og einnig í nokkrar veiðiferðir. Annars erum við hjónin með mjög stóran pall með öllu tilheyrandi sem er mjög vinsæll hjá vinkonuhópnum og var vel nýttur í sumar til að sóla sig og slaka á,“ segir Hanna.
Þá megi ekki gleyma nýjasta fjölskyldumeðlimnum, labradorhundinum Legó. „Við eignuðumst hann nýlega og hvutti heldur okkur svo sannarlega við efnið dag frá degi, enda mjög uppátækjasamur stríðnispúki!“