Róbert Ingi Richardsson er sérfræðingur á fjármálasviði og sinnir gerð kostnaðar- og rekstraráætlana fyrir húsfélög og viðskiptavini auk fjölda annarra verkefna sem upp koma í daglegri starfsemi Eignaumsjónar.
„Helstu áskoranir í mínu starfi eru að passa upp á að allt sé gert nákvæmlega eftir laganna bókstaf því oftast eru miklir hagsmunir undir. Stundum getur líka verið flókið að taka saman og skipta rétt upp kostnaði vegna framkvæmdainnheimtu. En það skemmtilegasta við starfið, fyrir utan auðvitað samstarfsfólkið, er fjölbreytileikinn sem fylgir þeim margvíslegu verkefnum sem tengjast rekstri húsfélaga,“ segir Róbert, sem hóf störf hjá Eingaumsjón í janúarbyrjun árið 2020.
Í mörg horn að líta
„Auk daglegra samskipta við bæði stjórnir húsfélaga og íbúa vegna allskyns fjármálatengdra fyrirspurna felast dagleg störf mín m.a. í því að útbúa rekstrar- og kostnaðaráætlanir og stilla upp innheimtu fyrir aðalfundi húsfélaga sem tryggi að húsgjöld, sem eru ákvörðuð út frá eignaskipayfirlýsingu viðkomandi húseignar, dugi til að standa straum af rekstrarkostnaði viðkomandi húsfélags.“
Uppstilling innheimtu fyrir félög sem eru í framkvæmdum og skipting framkvæmdakostnaðar í séreigna- og sameignarkostnað er einnig á borði Róberts. „Ef um er að ræða dýrar framkvæmdir og mikinn séreignakostnað er skynsamlegt að framkvæma uppgjör við framkvæmdarlok, til að ganga úr skugga um að allir hafi í raun og veru greitt það sem þeim bar. Þá kemur líka í ljós hvort íbúðaeigendur hafi vangreitt eða ofgreitt, að teknu tilliti til alls kostnaðar og endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem myndar þá skuld eða inneign hjá viðkomandi eiganda eða íbúð,“ segir Róbert.
Einnig megi t.d. nefna fjárhagsgreiningar fyrir húsfélög ef rekstur þeirra gengur illa. „Þá þarf að skoða og meta hvað er best að gera til að viðkomandi félag nái að rétta úr kútnum fjárhagslega.“
Fyrrverandi landsliðsmaður í íshokkí
Róbert ólst upp í Reykjavík, í Vesturbænum, Vogunum og Bústaðahverfinu, en í dag býr hann í Kópavogi með sambýliskonu sinni. Hann er með stúdentspróf af verslunarbraut Borgarholtsskóla og á tímabili var stefnan sett á framhaldsnám erlendis til að spila íshokkí , enda er hann fyrrum landsliðsmaður Íslands í greininni og spilaði með Birninum. Af því varð þó ekki en þess í stað fór Róbert í Háskólann í Reykjavík, þaðan sem hann útskrifaðist með BS gráðu í viðskiptafræði með sérhæfingu í alþjóðaviðskiptum.
„Áður en ég kom til Eignaumsjónar starfaði ég í rúm fjögur ár sem tekjustjóri hjá Sixt bílaleigu. Þar áður vann ég sem ráðgjafi og lánafulltrúi hjá Íbúðalánasjóði, sem nú heitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði með háskólanáminu og að því loknu. Stór hluti beggja starfanna gekk út á greiningar á fjárhag og fjármagnsflæði og sú reynsla nýtist mér vel hjá Eignaumsjón.“
Áhugamálin eru fótbolti og hreyfing
„Lífið utan vinnunnar snýst mest um rekstur verslunarinnar Íslensk heimili í Ármúla sem við sambýliskona mín eigum saman,“ svarar Róbert, aðspurður hvað hann geri í frítíma sínum.
„Þar fyrir utan eru fótbolti og hreyfing mín helstu áhugamál. Mér finnst líka gaman að spila bæði fótbolta og körfubolta og ég reyni að hreyfa mig reglulega til að viðhalda heilsu, annað hvort heima eða með því að fara í ræktina og ég fer einnig í sund og göngutúra. Ég er líka mikill tónlistarunnandi, hlusta mikið á tónlist og er bara frekar heimakær týpa, enda fátt betra en að vera heima og hafa það næs þó ég hafi líka gaman af að hitta vini og vera í góðra vina hópi, borða saman góðan mat og njóta góðra stunda með góðu fólki.“
Afslöppun innanlands
Sumarfríinu eyddi Róbert innanlands, enda aðstæður út um heim allan þannig að ferðalög til útlanda eru bara ekki á dagskrá hjá honum á þessu ári. „Við tókum smá „road trip“ norður á Akureyrir til að skipta um umhverfi, en aðaláherslan var bara lögð á að slaka aðeins á og hlaða batteríin eftir mjög annríka vinnutörn!“