Hafnarfjarðarbær gekk nýlega frá samkomulagi við Terra ehf. um innleiðingu á nýju sorphirðufyrirkomulagi sem hefst vorið 2023. Skilmálar sorphirðunnar í Firðinum eru í takt við sameiginlega yfirlýsingu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá í vor um innleiðingu á einu samræmdu sorphirðukerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið og sérsöfnun á lífrænum úrgangi.
Samkvæmt frétt á heimasíðu Hafnarfjarðar hefst losun á fjórum úrgangsflokkum vorið 2023. Þeir eru:
- Lífrænn eldhúsúrgangur
- Blandað heimilissorp
- Pappír og pappi
- Plastumbúðir
Fyrirkomulag í fjölbýli kynnt er nær dregur
Almennt viðmið fyrir hvert heimili í Hafnarfirði verða tvær tvískiptar tunnur, önnur með hólfum fyrir lífrænan eldhúsúrgang og blandaðan úrgang en hin með hólfum fyrir plastumbúðir annars vegar og pappír og pappa hins vegar. Fram kemur í fréttinni að annað fyrirkomulag verði á tunnum í fjölbýli og ítarlegri upplýsingar um framkvæmd og fyrirkomulag verði kynntar þegar nær dregur innleiðingu á breyttu fyrirkomulagi.
Nýja sorphirðufyrirkomulagið í Hafnarfirði er í takt við fyrirætlanir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um eitt samræmt sorphirðukerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Því er ætlað að mæta þeim breytingum sem taka gildi 1. janúar 2023 um söfnun á úrgangi við heimili, samkvæmt lögum um hringrásarhagkerfi sem samþykkt voru á Alþingi sumarið 2021.