„Það verður sífellt algengara að húsfélög í fjölbýlishúsum fyrir heldri borgara, eins og við köllum gjarnan þessi félög, fái okkur hjá Eignaumsjón til að sjá um rekstur sinna fasteigna og tengda þjónustu,” segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar. „Fjölmörg slík hús eru nú þegar í þjónustu hjá okkur og við mótum og sníðum hana eins og hverju húsfélagi hentar. Við erum í raun skrifstofa viðkomandi félags og sjáum til þess að rétt sé staðið að öllum málum í rekstrinum!“
Eignaumsjón hf. býr að 20 ára þekkingu og reynslu á sínu sviði og er leiðandi í rekstrarumsjón og þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa á Íslandi. Félagið hefur vaxið ört á síðustu árum og sér nú um rekstur um 690 félaga með um 14.500 íbúðum eða eignarhlutum.
Auðveldum störf formanns og stjórna húsfélaga
„Allir sem hafa setið í stjórnum húsfélaga vita að störf stjórnarmanna eru bæði krefjandi og oft vanmetin hvað varðar vinnuframlag, umfang og ábyrgð,“ segir Páll og bætir við að rekstur húsfélaga geti líka verið viðkvæmur fyrir gagnrýni félagsmanna. „Áralöng reynsla okkar hjá Eignaumsjón, mikil sérþekking starfsfólks og fastmótaðir og öruggir verkferlar tryggja að við leysum hin fjölbreyttustu vandamál fyrir viðskiptavini okkar á bæði faglegan og persónulegan hátt. Við finnum lausnir á flestum málum sem upp koma við reksturinn og auðveldum þannig störf formanns og stjórnar húsfélagsins með faglegum stuðningi, þannig að húsfélagið verður ekki neinn hausverkur!“
Eignaumsjón sér um innheimtu allra gjalda fyrir húsfélög sem eru í þjónustu hjá félaginu og hefur líka umsjón með öllum greiðslum, færslu bókhalds og gerð ársreikninga. „Við sækjum líka um endurgreiðslu virðisaukaskatts og má t.d. nefna að á nýliðnu ári sóttum við um endurgreiðslu á hátt í 400 milljónum króna fyrir félög í þjónustu Eignaumsjónar vegna átaksins Allir vinna.“
Páll segir það líka oft vanmetið hve mikill tími og vinna fer í að halda utan um fundi húsfélaga. „Við tökum að okkur að sjá um allt sem snýr að bæði aðalfundum og húsfundum, þar á meðal undirbúning og frágang fundargagna, fundarboð, fundarstjórn og ritun fundargerðar. Einnig veitum við ráðgjöf þegar vafa- og deilumál koma upp í húsfélaginu en þá getur skipt sköpum að hafa hlutlausan aðila til ráðgjafar til að stuðla að betri og hreinskiptari samskiptum íbúa,“ bætir Páll við og talar þar af reynslu hafandi starfað hjá Eignaumsjón í tæpan áratug.
Góð samskipti og betri kjör í krafti fjöldans
Mikið er lagt upp úr lausnamiðuðum og góðum samskiptum við viðskiptavini hjá Eignaumsjón og áhersla lögð á skýra verkferla, skjót svör og teymisvinnu. Eftir 20 ára starfsemi býr félagið líka yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu, sem kemur svo sannarlega að góðum notum þegar aðstoða þarf stjórnir húsfélaga við lausn aðsteðjandi verkefna eða útvega ýmiskonar þjónustu á hagkvæmustu kjörum hverju sinni.
„Við útvegum iðnaðarmenn og sjáum um samskipti við þá, aðstoðum við tryggingamál, öflum tilboða í þrif á sameign, sorp- og bílageymslu og fáum tilboð í lóðaumsjón, hvort sem um er að ræða slátt, snjómokstur eða annað. Við komum einnig með tillögur að hússjóðs- og framkvæmdagjöldum, leitum tilboða í úttektir, gerum yfirlýsingar húsfélaga við fasteignaviðskipti um stöðu seljanda hjá húsfélaginu, semjum um umtalsverða aflsætti, s.s. af raforku, þjónustu öryggisfyrirtækja, lögfræðiþjónustu og mörgu fleira.“
Viðatal í hverfisblöðum Miðborgar og Hlíða og Laugardals, Háaleitis og Bústaða í febrúar 2021.