Fjöleignarhúsalögin gera ráð fyrir því að húsreglur séu settar í öllum fjölbýlishúsum og samkvæmt þeim hvílir sú skylda á stjórn húsfélags að semja og leggja fyrir húsfund til samþykktar reglur um hagnýtingu sameignar og séreignar að því marki sem lögin leyfa. Jafnframt hvílir sú skylda á öllum íbúum að virða húsreglurnar, hvort sem þeir eru eigendur eða leigjendur. Í fjöleignarhúsum sem eru ekki íbúðarhúsfer það meira eftir atvikum og staðháttum hvers efnis húsreglur þurfa að vera.
Samkvæmt 74. gr. laga um fjöleignarhús frá 1994 eiga húsreglur að innihalda sem ítarlegust ákvæði um sambýlishætti, umgengni og afnot sameignar og skiptingu afnota ef því er að skipta, allt eftir því sem við á og eðlilegt og haganlegt þykir að reglufesta í viðkomandi húsi.
Í húsreglum skal m.a. fjalla um umgengni í sameign og afnot hennar og hagnýtingu, skiptingu afnota sameiginlegs þvottahúss og hvernig þrifum sameignar og umhirðu lóðar skuli háttað og skyldur eigenda í þeim efnum. Þá skulu vera í húsreglum ákvæði sem tryggja svefnfrið í húsinu a.m.k. frá miðnætti til kl. 7 að morgni, sem og undanþágur sem veita má frá slíku banni. Einnig skulu húsreglur innihalda ákvæði sem gilda um dýrahald, sé það leyft í viðkomandi húsfélagi, sem og reglur um afnot sameiginlegra bílastæða og hagnýtingu séreigna, að því marki sem unnt er.
Verða að vera í takt við ákvæði fjöleignarhúsalaganna
Húsreglur mega ekki fara í bága við ákvæði fjöleignarhúsalaganna. Samþykkt og setning húsreglna samþykkis einfalds meirihluta eigenda, nema þegar fjöleignarhúsalögin áskilja samþykki allra eigenda, eða aukins meirihluta, sé þörf, s.s. vegna dýrahalds eða víðtækra takmarkana á umráðarétti yfir séreign o.fl. Verður þá að gæta þess að samþykki tilskilins fjölda liggi fyrir til að húsreglurnar verði skuldbindandi gagnvart eigendum.
Húsreglum sem hafa að geyma almenn atriði sem einfaldur meirihluti getur ákveðið þarf ekki að þinglýsa til að þær hafi gildi milli eigenda og gagnvart nýjum eigendum. Taki húsreglur hins vegar til atriða sem þurfi samþykki allra, getur verið öruggara þinglýsa slíkum samþykktum til að þær hafi gildi, bæði gagnvart viðsemjendum eigenda sem og síðari eigendum.
Aðgengi að húsreglum og aðstoð við gerð þeirra
Nú þegar eru um 100 húsfélög í þjónustu hjá okkur í Eignaumsjón með húsreglur sínar rafrænt vistaðar á MÍNAR SÍÐUR á www.eignaumsjon.is. Það auðveldar bæði íbúum, eigendum og stjórnum viðkomandi húsfélags aðgengi að reglunum og sparar þannig bæði tíma og fyrirhöfn.
Enn fremur hafa stjórnir húsfélaga sem eru ekki með sínar húsreglur aðgengilegar á MÍNAR SÍÐUR á vefnum okkar, verið hvattar til að senda okkur þær á rafrænu formi.
Við aðstoðum einnig stjórnir húsfélaga, sem ekki hafa sett sér húsreglur, við það verkefni. Með því að senda fyrirspurn á thjonusta@eignaumsjon.is er hægt að óska eftir að fá send drög að almennum húsreglum, sem húsfélög geta síðan lagað að sínum þörfum og lagt fyrir húsfund, eða aðalfund. til samþykktar.