Eftirspurn eftir faglegu eftirliti og umsjón með sameign húsfélaga og atvinnuhúsa hefur vaxið jafnt og þétt á þeim sjö árum sem liðin eru frá því að Eignaumsjón hóf að bjóða upp á slíka sérþjónustu vorið 2017.
Húsumsjón heyrir undir þjónustusvið Eignaumsjónar eftir skipulagsbreytingar haustið 2023. Í upphafi sinnti einn starfsmaður öllum verkefnum Húsumsjónar en í dag eru fastráðnir húsumsjónarmenn þrír talsins, auk þess sem ráðgjafar, bæði á þjónustu- og fjármálasviði fyrirtækisins, leggja þeim lið.
Hagkvæm lausn fyrir hús- og rekstrarfélög
„Húsumsjón kemur í stað hefðbundinnar húsvörslu og er fagleg, hagkvæm og skynsamleg lausn fyrir fjölda hús- og rekstrarfélaga. Með því að nýta sér hana geta félögin lækkað viðhaldskostnað en tryggt eftir sem áður að ástand sameigna viðkomandi fasteigna sé eins og best verður á kosið,“ segir Gunnþór S. Jónsson, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Viðskiptavinir ákveða tíðni þjónustunnar, eftir þörfum hvers og eins, en í boði er allt frá daglegum eftirlitsheimsóknum til heimsókna á eins til tveggja vikna fresti.
Skráðir verkferlar og stöðuskýrsla
Húsumsjónarmenn Eignaumsjónar vinna samkvæmt skráðum verkferlum og fylgja fyrir fram ákveðinni verklýsingu fyrir hvern viðskiptavin, sem tekur til bæði umgengni, ástands og ásýndar sameignar, yfirferðar á búnaði húseignarinnar, lagfæringum, eftirliti og eftirfylgni með aðkeyptri þjónustu frá þriðja aðila.
„Góð upplýsingagjöf til viðskiptavina og samskipti skipta sköpum fyrir þjónustufyrirtæki eins og okkar og því skilum við skýrslu til stjórnar viðkomandi húseignar að lokinni hverri heimsókn,“ segir Gunnþór og bætir við að umrædd skýrslugjöf hafi mælst mjög vel fyrir. „Þar er upplýst um ástand sameignar og það sem gert var, jafnframt því sem settar eru fram ábendingar um það sem betur má fara varðandi sameign viðkomandi húseignar sem er í húsumsjónar hjá okkur í Eignaumsjón“.