Oft er fullyrt að samningar um fasteignakaup séu þeir algengustu og þýðingarmestu sem venjulegt fólk gerir sín á milli og þess vegna er brýnt að viðskipti með fasteignir hvíli á traustum grunni. Það er mikið til í þessum fullyrðingum.
Í lögum eru mörg ákvæði sem leggja skyldur á fasteignasala og er mikilvægt að farið sé í einu og öllu eftir þeim reglum. Nokkrar af þessum reglum lúta sérstaklega að skyldu fasteignasala til að tryggja að fyrir kaupsamning liggi fyrir upplýsingar um stöðu íbúðar í fjöleignarhúsi gagnvart viðkomandi hússjóði og húsfélagi.
Í lögum um fjöleignarhús skylda lögð á seljanda þess efnis að kynna fyrir kaupanda eignaskiptayfirlýsingu, eignaskiptasamning, sérstakar samþykktir húsfélagsins ef um þær er að ræða, reikninga húsfélagsins og stöðu og framlög eignarhlutans gagnvart því og hússjóði þess. Þá skal seljandi enn fremur gefa fullnægjandi og tæmandi upplýsingar um yfirstandandi eða fyrirhugaðar framkvæmdir, viðgerðir eða endurbætur.
Það fylgir því meiri ábyrgð að ofangreindar upplýsingar séu réttar en margir gera sér grein fyrir. Mörg dæmi eru til um ágreining og mistök sem átt hafa sér stað við öflun og framsetningu slíkra upplýsinga. Slíkt getur leitt til bótaskyldu húsfélaga og dómur hefur fallið þannig að fasteignasali var gerður ábyrgur fyrir ónógum upplýsingum.