Iðgjöld tryggingafélaga af húseigendatryggingum hafa hækkað nokkuð milli ára en meginástæðan er hækkun byggingavísitölu um nærri 23% milli áramótanna 2007/2008 og 2008/2009. Er þar um mikla hækkun að ræða og er hún umfram almennt verðlag. Einnig virðast tryggingafélög í vaxandi mæli hækka taxta sína ef um tjón er að ræða í viðkomandi húsi.
Orkukostnaður í fjöleignarhúsum hefur lítið breyst á síðustu misserum, nema til komi aukin notkun í húsum. Reglulega þarf að huga að stillingu hitakerfa og ofna, bæði í sameignum og eins í séreignum ef um sameiginlega mæla er að ræða. Þá þarf að huga að stillingu snjóbræðslukerfa þar sem þeirra nýtur við.
Annar rekstrarkostnaður hefur að mestu fylgt almennu verðlagi.