Heimilt að halda allt að 100 manna húsfundi
Undanþága varðandi sitjandi viðburði, sem veitt hefur verið frá samkomutakmörkunum vegna COVID-19, heimilar að allt að 100 manns mega nú vera viðstaddir fundi hús- og rekstrarfélaga, að uppfylltum skilyrðum um skráningu gesta, fjarlægðarmörk, grímuskyldu of fleira. Í ljósi þessa er Eignaumsjón að hefja boðun aðalfunda hjá stærri húsfélögum í þjónustu félagsins, sem höfðu ekki náð að halda aðalfund þegar samkomutakmarkanir voru hertar í lok marsmánaðar.
Samkomutilslakanir sem tóku gildi 15. apríl sl. heimiluðu engar undanþágur frá 20 manna reglunni fyrir húsfélög. Nú hefur hins vegar verið gerð breyting á ákvæði 3. greinar reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar þar sem veitt er undanþága frá 20 manna reglunni varðandi sitjandi viðburði. Allt að 100 gestum er nú heimilt að vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga og sviðslistar-, menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra eða sambærilega viðburði, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Allir gestir skulu sitja og ekki andspænis hver öðrum, skrá skal upplýsingar um þátttakendur og geyma í tvær vikur. Allir skulu nota andlitsgrímu, tryggja skal fjarlægð og önnur sóttvarnarákvæði sem tilgreind eru í reglugerð nr. 427/2021.
Fögnum þessari niðurstöðu
Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest að fundir húsfélaga falli undir 3. grein reglugerðarinnar og er fundateymi Eignaumsjónar þegar byrjað að undribúa boðun funda, í samráði og samstarfi við stjórnir viðkomandi félaga og í góðri trú um að ekki komi til hertra aðgerða á ný, þegar gildandi reglugerð rennur út eftir viku, þann 12. maí næstkomandi.
„Við fögnum þessari niðurstöðu, enda aðalfundir hús- og rekstrarfélaga stór hluti af þjónustu okkar hjá Eignaumsjón,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri og bætir við að fundir minni húsfélaga hjá Eignaumsjón hafi hafist strax upp úr miðjum apríl. Framkvæmdastjórinn áréttar jafnframt að enn sé svo beðið eftir því að Alþingi samþykki breytingar á fjöleignarhúsalögunum sem munu gera rafræna aðalfundi húsfélaga löglega. Aðstaða fyrir slíka rafræna fundi er þegar til staðar hjá Eignaumsjón.