Skemmtilega öðruvísi fjöleignarhús á Dvergsreit í Hafnarfirði
Á svonefndum Dvergsreit við Lækinn í Hafnarfirði hefur Eignaumsjón nýlega stofnað deildaskipt heildarhúsfélag, Lækjargötu 2, fyrir 19 íbúða þyrpingu og fimm verslunarrými sem er verið að ljúka við að byggja þar á vegum félagsins Klapparholts ehf.
Fimm hús standa á lóðinni, undir þeim er sameiginlegur bílakjallari og lyfta er úr honum upp í inngarð sem er ofan á bílageymslunni. Íbúðirnar, sem eru á stærðarbilinu tveggja til fjögurra herbergja, eru allar með sérinngangi. KRADS og Trípólí arkitektar hönnuðu byggingarnar, í framhaldi af vinningstillögu um uppbyggingu á reitnum og GG Verk annaðist byggingarframkvæmdir.
Einstakur reitur
„Það var gaman að koma að stofnun þessa húsfélags,“ segir Hallur Guðjónsson, sölufulltrúi hjá Eignaumsjón. „Við fyrstu sýn hefði mátt ætla að ekki þyrfti að stofna deildaskipt heildarfélag fyrir þessi krúttlegu nýju hús á reitnum en við skoðun á eignaskiptasamningi sést að þarna er í raun um eitt mannvirki að ræða með 19 íbúðum, fimm verslunarrýmum, 25 stæða bílageymslu og sameiginlegri lóð. Þar af leiðandi fellur þessi nýbygging undir ákvæði fjöleignarhúsalaga og þar skal vera til staðar húsfélag um rekstur sameignar. Deildaskipting húsfélagsins er fyrst og fremst vegna atvinnubilanna fimm á jarðhæðinni. Þau eru undanskilin í sorphirðu en eiga hlutdeild í sameign allra í byggingunni og lóðinni, eins og íbúðirnar 19,“ bætir Hallur við.
„Þessi reitur í miðbæ Hafnarfjarðar er um margt einstakur. Það er t.d. frábært að sjá hvað byggingarnar falla vel inn í umhverfið og staðsetningin, í næsta nágrenni við miðbæinn ætti að tryggja að verslunarrýmin blómstri, sem hefur því miður ekki alltaf verið tilfellið í nýbyggingum þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð.“
Fjármál, fundir og þjónusta
Húsfélagið Lækjargata 2 er í þjónustuleið 3 hjá Eignaumsjón. Í því felst m.a. umsjón með fjármálum húsfélagsins, bæði innheimtu og greiðslu reikninga, færslu bókhalds og gerð rekstrar-, efnahags- og ársreikninga. Þjónustuleið 3 felur líka í sér undirbúning aðalfunda með stjórn húsfélags, fundarstjórn og -ritun, ásamt gerð kostnaðar- og húsgjaldaáætlana þar sem rétt skipting húsgjalda samkvæmt lögum um fjöleignarhús er tryggð.
Húsfélög í þjónustuleið 3 njóta einnig aðstoðar við útvegum þjónustutilboða, s.s. í þrif, sorp- og garðumsjón, snjómokstur og tryggingar, svo fátt eitt sé nefnt. Fyrirtækið útvegar einnig iðnaðarmenn á góðum kjörum í smærri viðhaldsverkefni, veitir ráðgjöf til eigenda í húsfélögum um réttindi þeirra og skyldur, aðstoðar við úrlausn ágreiningsmála og ráðleggur stjórnum húsfélaga um stærri sem smærri viðhaldsframkvæmdir.