„Góða húsið, grænt og snjallt“!
Almenn ánægja er hjá Eignaumsjón með sýninguna Verk og vit 2022 sem er nýlega afstaðin, þar sem um og yfir 100 fyrirtæki tóku þátt og kynntu vörur sínar og þjónustu. Upphaflega átti sýningin að fara fram í mars 2020 en var frestað vegna COVID-19, eins og svo mörgu öðru.
„Þetta var frumraun okkar á þessum vettvangi þar sem byggingariðnaður, skipulagsmál og mannvirkjagerð er í brennidepli og niðurstaða okkar er sú að það hafi tekist nokkuð vel til,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri. „Það er alltaf gott að sýna sig og sjá aðra, víkka sjóndeildarhringinn og kynna sér hvað aðrir eru að gera, samtímis því sem eigin þjónusta er kynnt,“ bætir hann við en Eignaumsjón þjónar eigendum fasteigna og er leiðandi á því sviði á Íslandi, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða atvinnuhúsnæði.
„Við byggjum starfsemi okkar á 22 ára þekkingu og reynslu og með sérhæfðu og traustu starfsfólki, faglegum vinnubrögðum, gagnsæjum verkferlum og öflugri upplýsingagjöf gerum við rekstur húsfélaga og atvinnuhúsa bæði markvissari, hagkvæmari og öruggari“.
Aukin áhersla á græna nálgun
„Sjálfbærni og umhverfismál skipta æ meira máli í lífi okkar allra og við hjá Eignaumsjón höfum hægt og bítandi verið að feta okkur inn á þá braut í þjónustu okkar. Þar má m.a. nefna úttekt okkar, sem er bæði hagkvæm og hlutlaus, fyrir húsfélög sem þurfa að koma upp rafbílahleðslu í sínu fjöleignarhúsi. Þetta er knýjandi úrlausnarefni fyrir marga og mikilvægt að standa vel að ákvörðunum með hagsmuni húsfélagsins að leiðarljósi.
Húsumsjón okkar, sem felur í sér trausta umsjón sameignar, er líka vaxandi þjónusta fyrir stærri hús og rekstrarfélög atvinnuhúsa. Því tengt er þróunarverkefni sem við kynntum sérstaklega á Verk og vit, sem við köllum „Góða húsið, grænt og snjallt“!
Dregur úr orkusóun og kostnaði
Í stuttu máli snýst það um vöktun/rauntímamælingu á notkun á heitu vatni í fjölbýlishúsum og stýringu og stjórnun slíkra kerfa, til að koma í veg fyrir bæði orkusóun og óþarfa fjárútlát fyrir húsfélög og rekstrarfélög“. Aðspurður, segir Daníel að margir hafi sýnt málinu áhuga og komið með góðar ábendingar sem nýtist við frekari þróun verkefnisins. Auk mælinga til að minnka sóun, er einnig verið að horfa til þess að innleiða grænt bókhald í fjöleignarhúsum.
„Krafan í dag er að allir fasteignaeigendur og rekstrarfélög lágmarki umhverfisáhrif og sýni samfélagslega ábyrgð. Við viljum leggja okkar af mörkum til að fjölbýlishús í okkar þjónustu ná þeim árangri!“
Vitðal við Daníel Árnason, framkvædmastjóra Eignaumsjónr í Sóknarfæri í marslok 2022.