Nýr innheimtufulltrúi hjá Eignaumsjón
Guðbjörg Dögg Snjólfsdóttir hefur verið ráðin innheimtufulltrúi hjá fjármálasviði Eignaumsjónar og sinnir hún útsendingum á mánaðalegum húsgjöldum, sér- og framkvæmdainnheimtu, upplýsingagjöf varðandi innheimtu og fleiru.
Guðbjörg var þjónustustjóri í sex ár hjá iKort áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón í febrúarlok. Áður vann hún m.a. í 11 ár sem sérfræðingur hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka og Íslandsbanka og sem markaðsstjóri hjá Heilsuhóteli Íslands. Guðbjörg er með mastersgráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og BS gráðu frá sama skóla í viðskiptafræði.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 20 ára þekkingu og reynslu í rekstri hús- og rekstrarfélaga fasteigna í takt við ákvæði fjöleignarhúsalaganna. Félagið er brautryðjandi á Íslandi og annast rekstur um 700 félaga með um 15.000 íbúðum/eignarhlutum, með það að markmiði að gera reksturinn bæði markvissari og hagkvæmari og auka upplýsingaflæði til bæði eigenda og hússtjórna.