Mar 10, 2022 | Fréttir
Svanhildur Ólöf Harðardóttir hóf nýlega störf hjá fjármálasviði Eignaumsjónar. Hún sinnir almennum gjaldkerastörfum, s.s. greiðslu reikninga, eftirfylgni krafna og úrlausn fjármálatengdra verkefna í samráði við fjármálateymi Eignaumsjónar.
Svanhildur starfaði sem gjaldkeri hjá Eignarekstri áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Þar áður starfaði hún m.a. sem gjaldkeri og innheimtufulltrúi hjá Reykjafelli og sérfræðingur í lögfræðiinnheimtu og milliinnheimtu hjá Landsbankanum.
Svanhildur er útskrifuð af félagsfræðibraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og stundaði m.a. fjármála- og rekstrarnám við Viðskipta- og tölvuskólann, verðbréfamiðlun við Háskólann í Reykjavík og hefur hún jafnframt lokið bókhaldsgrunni hjá Promennt.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón sérhæfir sig í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis með það að markmiði að gera rekstur fasteigna bæði markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og hússtjórna og auðvelda störf þeirra.
Feb 22, 2022 | Fréttir
Nýtt samkomulag við HS Orku tryggir viðskiptavinum Eignaumsjónar frábær sérkjör á rafmagni á markaði. Samkomulagið nær sem fyrr til raforkunotkunar í sameignum allra húsfélaga og rekstrarfélaga atvinnuhúsa sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Eigendur íbúða og eignarhluta í húsfélögum sem eru í viðskiptum við Eignaumsjón geta einnig nýtt sér þessi afsláttarkjör.
Viðskiptavinir Eignaumsjónar hafa notið umtalsverðra afsláttarkjara hjá HS Orku sl. fimm ár, í krafti stærðar og umsvifa félagsins, en um 700 húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis með um 16.100 eignum/íbúðum eru nú í þjónustu hjá Eignaumsjón.
Í framhaldi af umræðu um rafmagnsverð
Í kjölfar umræðu og umfjöllunar sem verið hefur um rafmagnsverð til almennings endurskoðuðu forsvarsmenn Eignaumsjónar og HS Orku þau afsláttakjör sem verið hafa í gildi milli fyrirtækjanna.
„Allir viðskiptavinir hjá HS Orku sem tengjast Eignaumsjón færast yfir á nýjan taxta, sem tryggir að viðskiptavinir Eignaumsjónar fá ávallt frábær kjör á markaði, óháð verðbreytingum,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.
„Við hjá Eignaumsjón fögnum þessari kjarabót, sem er í takt við þá hagsmunagæslu sem við höfum lagt áherslu á frá upphafi, m.a. með því að leita ávallt bestu kjara í krafti fjöldans fyrir viðskiptavini okkar. Breytingin lækkar rafmagnskostnað enn frekar hjá þeim húsfélögum í okkar þjónustu sem nýta sér afsláttarkjör HS Orku og skilar bæði húsfélögum og íbúum þeirra sparnaði í daglegum rekstri,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Auðvelt að færa raforkuviðskipti
Formenn stjórna húsfélaga og rekstrarfélaga atvinnuhúsnæðis, sem vilja nýta sér afsláttarkjör Eignaumsjónar hjá HS Orku, geta sent beiðni á þjónustuver Eignaumsjónar (thjonusta@eignaumsjon.is) um flutning orkukaupa. Tiltaka þarf nafn og kennitölu viðkomandi félags í beiðninni.
Eigendur/íbúar í húsfélögum í þjónustu Eignaumsjónar geta einnig nýtt sér afsláttarkjör HS Orku fyrir sínar séreignir. Áhugasamir geta gengið rafrænt frá flutningi á raforkuviðskiptum til HS Orku í húsbókinni, mínum síðum eigenda, á www.eignaumsjon.is. Jafnframt skal áréttað að flutningur einstaklinga á eigin orkukaupum er ekki bundinn því að orkukaup fyrir sameign húsfélagsins hafi verið færð til HS Orku.
Afsláttarkjör Eignaumsjónar og HS Orku gilda einvörðungu um kaup á almennri, óskerðanlegri raforku, en ekki um raforkuflutning.
Feb 18, 2022 | Fréttir, Greinar
Á annað ár er liðið frá því að mínar síður Eignaumsjónar, þjónustusíður fyrir eigendur og stjórnir húsfélaga sem eru í þjónustu hjá félaginu, gengu í endurnýjun lífdaga með nýju vefviðmóti og breyttu útliti. Til frekari aðgreiningar fengu þjónustusíðurnar einnig nýtt nafn: Húsbókin – mínar síður eigenda.
Húsbókin hefur mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar sem farnir eru að nýta sér þessa rafrænu þjónustu- og upplýsingagátt. Þar geta bæði eigendur og stjórnir í húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsa nálgast upplýsingar um málefni síns húsfélags á einfaldan hátt og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum, hvar og hvenær sem þeim hentar, í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.
Hvað gögn er hægt að skoða?
Segja má að notendur geti nú með einum „smelli“ skoðað rauntímaupplýsingar um sína eign því leitast hefur verið við að hafa allt notendaviðmót Húsbókarinnar sem fljótvirkast og þægilegast. Við fyrstu innskráningu þarf notandi að skrá sig inn með kennitölu greiðanda og/eða eiganda og samþykkja skilmála Húsbókarinnar með netfangi sínu.
- Húsbókin er upplýsingagátt fyrir eigendur og stjórnir húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón. Í aðdraganda aðalfunda eru t.d. öll fundargögn aðgengileg í húsbókinni. Þar er enn fremur hægt að nálgast fundargerðir, ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags.
- Eigendur/íbúar hafa ávallt aðgang að nýjustu upplýsingum um húsgjöldin sín í Húsbókinni, s.s. greiðsluseðla og kröfusögu.
- Stjórnarmenn sjá daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins, stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda. Eftirlitsskýrslur húsumsjónar eru einnig aðgengilegar stjórnarmönnum í Húsbókinni, ef við á, sem og önnur gögn sem snúa að stjórn húsfélagsins.
Rafrænar þjónustubeiðnir og afslættir
Ný þjónusta bættist nýlega við Húsbókina sem eru rafrænar þjónustubeiðnir. Undir flipanum „Þjónustuleiðir“ er hægt að framkvæma nafnabreytingar, eigendaskipti og breytingar á heimilisfangi. Jafnframt er hægt að óska eftir yfirlýsingu húsfélags vegna sölu á fasteignum og senda beiðnir vegna útlagðs kostnaðar o.fl.
Undir flipanum „Afslættir“, hafa viðskiptavinir aðgang að afsláttartilboðum sem Eignaumsjón hefur samið um við nokkur fyrirtæki. Má þar nefna mjög góð sérkjör á rafmagni hjá HS Orku fyrir bæði húsfélög og eigendur séreigna í húsfélögum. Góð afsláttarkjör eru einnig í boði af öryggisþjónustu og búnaði hjá Securitas og af þjónustu hjá Lögborg lögfræðiþjónustu, vegna mála sem tengjast húsfélögum.
Örugg gagnageymsla
Til að tryggja sem best öryggi gagna er innskráning í Húsbókina aðgangsstýrð gegnum island.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli, þannig að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim.
Til hagræðis helst aðgangur virkur í 30 daga í viðkomandi tæki eða tölvu en notandi þarf ávallt að skrá sig inn á ný, þegar farið er inn í Húsbókina úr nýju tæki eða tölvu.
Aðgengilegar upplýsingar auka gagnsæi og virði eigna
Húsbókin er stórt skref í átt að enn betri þjónustu við eigendur fasteigna sem eru í viðskiptum við Eignaumsjón og markmiðið er að efla hana enn frekar í framtíðinni. Greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar auka virði eigna og við viljum að eigendur í hús- og rekstrarfélögum sem eru í þjónustu Eignaumsjónar, njóti þess.
Feb 9, 2022 | Fréttir
Hátt í 70 húsfélög hafa nú leitað til Eignaumsjónar um hlutlausa og faglega úttekt á hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar við uppsetningu og rekstur slíkrar aðstöðu. Á þriðja tug þeirra hafa þegar ákveðið að fela Eignaumsjón að annast sjálfvirka innheimtu vegna notkunar hleðslustöðvanna á húsgjaldareikning viðkomandi notenda.
Meðal fyrstu húsfélaganna til að nýta sér þjónustu Eignaumsjónar um úttekt á hleðsluaðstöðu rafbíla var Laufvangur 2-10 í Hafnarfirði. Fyrstu hleðslustöðvarnar þar eru komnar í gagnið og nýbúið að gefa út hleðslukort, þannig að sjálfvirk innheimta getur hafist hjá rafbílaeigendum í húsfélaginu sem nota stöðvarnar.
Ekkert álag á raforkunotkun bíleigenda
„Við fengum fyrir um ári síðan beiðni um að svona stöðvum yrði komið upp. Þá leituðum við til Eignaumsjónar og fengum úttekt á hleðsluaðstöðu fyrir okkur,“ segir Jón Ragnars, formaður húsfélagsins. Hann segir að í kjölfarið hafi Eignaumsjón óskað eftir tilboðum, húsfundur verið haldinn um málið og hagstæðasta tilboðinu tekið, frá Hleðsluvaktinni, sem sá um að koma stöðvunum upp og þjónustar þær.
Stöðvarnar voru komnar upp seint í haust og var Eignaumsjón fengin til að sjá um rekstur þeirra. Stöðvarnar hafa nú verið tengdar við kerfi Eignumsjónar,sem fær sendar upplýsingar rafrænt um notkun hvers og eins rafbílaeiganda í húsfélaginu og útbýr reikninga mánaðarlega. Kostnaðurinn færist síðan beint á húsgjaldareikning viðkomandi notanda, þar sem húsfélagið er í þjónustu hjá Eignaumsjón, og án álags á raforkunotkun bíleigenda, öfugt við það sem algengt er hjá innheimtuaðilum sem eru með „opin kerfi“.
Njóta líka afsláttarkjara á rafmagni
„Við njótum þess líka að fá afslátt á þeim kjörum sem Eignaumsjón hefur á kaupum á rafmagni og er þetta þá mjög þægilegt í alla staði,“ segir Jón og bætir við að reksturinn sé nú kominn á gott skrið. Jafnframt liggi fyrir áætlun samkvæmt úttektinni um framtíðarþörf á hleðslustöðvum fyrir húsfélagið, sem fylgt verði eftir á komandi árum.
Jan 27, 2022 | Fréttir
Kristín Helga Björnsdóttir kom nýlega til starfa í þjónustuveri Eignaumsjónar. Þjónustuverið sinnir erindum frá stjórnum hús- og rekstrarfélaga, annast samskipti við þjónustu- og fagaðila og svarar almennum erindum sem berast félaginu.
Kristin Helga starfaði við móttöku viðskiptavina hjá Terra, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón í nóvember 2021. Þar á undan starfaði hún hjá Kletti leigufélagi og Íbúðalánasjóði, við afgreiðslu og upplýsingamiðlun til viðskiptavina. Kristín Helga er með próf sem viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík, stúdentspróf frá Keili og leggur stund á viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að yfir 20 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Markmið félagsins er að gera rekstur fasteigna bæði markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna hús- og atvinnufélaga.