Veturinn kemur – enn og aftur!
Þó enn séu rúmar tvær vikur í fyrsta vetrardag á dagatalinu, minnti snjórinn í morgun okkur á að það er tímabært að huga að haust- og vetrarverkefnum húsfélaga.
Það kemur mörgum alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa að þá hægir á allri umferð og allt situr jafnvel fast, strax á bílastæði hússins þar sem ekki var búið að gera ráðstafanir varðandi snjómokstur! Nú er því rétti tíminn fyrir húsfélög að fá tilboð í vetrarþjónustu og snjómokstur, hafi þau ekki þegar gengið frá slíkum samningum. Þjónustuverið okkar getur aðstoðað við öflun tilboða og gerð þjónustusamninga.
Er hitakerfi húsfélagsins með „haustveiki“?
Oft er eins og „haustveiki“ herji á hitakerfi húsa. Þrýstijafnarar gætu þá verið fastir og stillikranar á ofnum eru ekki virka almennilega. Þá þarf að grípa til aðgerða, bæði til að meta ástandið og tryggja að hitakerfið virki eðlilega.
Til að bregðast við þessu bjóðum við nú húsfélögum, hvort sem þau eru í rekstrarumsjón hjá Eignaumsjón eða ekki, upp á Hitavaktina; mánaðarlega skoðun í tæknirýmum í sameign til að tryggja að hitagrindur og snjóbræðslukerfi starfi á fullum afköstum og án vandamála.
Reglubundið eftirlit fagfólks getur bæði dregið úr sóun og sparað heitt vatn, sem hefur hækkað umtalsvert á nokkrum árum og þar með lækkað rekstrarkostnað húsfélagsins og útgjöld eigenda. Þau sem eru áhugasöm um Hitavaktina geta haft samband við þjónustuverið í síma 585-4800, eða í netspjalli.
Til að liðka stilliloka á ofnum mælum við með að fólk hreyfi þá upp og niður til að losa um pinnan í þeim en hann á það til að festast ef lokar eru ekki hreyfðir reglulega. Skynsamlegt er líka að tappa lofti af ofnum með þar til gerðum ofnlykli.
Ofnar eiga almennt að vera heitari að ofan en neðan og er að jafnaði hæfilegt að stilla þá á 2-3. Ef stillt er á hæsta gildi á ofninn að snarhitna uppi, en vera kaldari að neðan. Ef ofn er mjög heitur að neðan er væntanlega sírennsli í gegnum lokann og varmatap. Þá þarf að skipta um loka eða ventil í lokanum. Ef þið þurfið aðstoð pípara er um að gera að láta okkur vita og við fáum pípara til að líta við hjá ykkur.
Rennu-, niðurfallahreinsun og trjáklippingar
Við höfum minnt á hreinsun þakrenna og niðurfalla fyrr í haust en ekki sakar að gera það aftur. Nú þegar laufin falla er mikilvægt að tryggja að niðurföll og þakrennur stíflist ekki. Það er mikilvægt að íbúar séu vakandi fyrir þessu þar sem laufblöð geta safnast hratt upp og stíflað frárennsliskerfin.
Haustið er líka tíminn til að klippa tré og runna og undirbúa flutning á plöntum og trjám, ef þess er þörf. Þjónustuverið okkar leggur húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur lið við að finna réttu aðilana, bæði í trjáklippingar og lóðahreinsanir og annað það sem gera þarf.
Sendið erindi á thjonusta@eignaumsjon.is, hringið í síma 585-4800 eða hafið samband við okkur á netspjallinu á heimasíðunni; eignaumsjon.is.