Viðhald á piparsveinablokkinni á Eskifirði gengur vel
Umfangsmiklum viðhaldsframkvæmdum á piparsveinablokkinni svokölluðu á Eskifirði, Bleiksárhlíð 32, miðar vel og er stefnt að því að þeim ljúki að mestu í þessum mánuði. Framkvæmdirnar hófust í maí og voru löngu tímabærar að sögn formanns húsfélagsins, sem hefur verið í þjónustu hjá Eignaumsjón á þriðja ár.
„Þrátt fyrir 40 ára búsetu í blokkinni og marga húsfélagsfundina, þá náðust aldrei almennilegar ákvarðanir og sátt um viðhaldsmálin fyrr en að húsfélagið gekk til samstarfs við Eignaumsjón,“ segir Sindri Svavarsson, formaður húsfélagsins í Bleiksárhlíð 32. Sá stuðningur fólst m.a. í aðstoð við að taka erfiðar og fjárhagslega krefjandi ákvarðanir um viðhaldið og þekkingu á lögum um fjöleignarhús. Sú þekking er í raun forsenda þess að komast í gegnum svona verkefni bætir hann við, ánægður með góðan gang framkvæmda.
Löngu tímabært viðhald
Húsið, sem var byggð árið 1977, er fyrsta raunverulega fjölbýlishúsið sem reist var á Eskifirði og þótti nokkuð nýstárleg á sínum tíma, ekki síst vegna útlits þaksins. Viðhaldið nú snýr einmitt að mestu að þakinu og er m.a. verið að endurnýja allt burðarkerfi þaksins og einangrun, skipta um þakglugga og leggja nýja klæðningu.
Þessar framkvæmdir voru löngu tímabærar að sögn Sindra og hafi margir furðað sig á því að fremri hluti þaksins, sem hallar mest, skuli ekki löngu fokinn í einhverjum hvellinum. „Þar var bara ekkert lengur sem hélt klæðningunni við steininn því þetta var allt orðið svo rotið.“ Samhliða þakviðgerðinni er líka verið að endurnýja gluggastykki með svalahurðum og sömuleiðis eru svalagólf endurnýjuð með einangrun og dúk.
Eftirlitsaðili með viðhaldsvinnunni er Steindór Stefánsson og fyrirtækið Og synir ehf. sér um framkvæmdir. Þeir voru ráðnir í verkið í framhaldi af tilboði sem samþykkt var á aðalfundi húsfélagsins í vor. Forsendurnar fyrir viðhaldsvinnunni voru samþykktar á húsfundi í félaginu í ágúst 2018. Byggðust þær m.a. á undirbúningsvinnu stjórnar húsfélagsins með starfsfólki Eflu verkfræðistofu á Reyðarfirði.