Þjónustuver Eignaumsjónar styrkist enn frekar
Tæpum þremur árum eftir að þjónustuver Eignaumsjónar var sett á laggirnar standa þar nú átta starfsmenn vaktina við að svara og sinna erindum frá stjórnum hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Þjónustuverið annast líka öll samskipti við þjónustu- og fagaðila og svarar öllum almennum erindum sem berast, hvort sem það er í tölvupósti, netspjalli, símtölum og heimsóknum á skrifstofu félagsins á Suðurlandsbraut 30.
„Þjónustuverið hefur heldur betur sannað sig frá því að það var sett á laggirnar og eru öll samskipi við viðskiptavini okkar mun markvissari eftir að það tók til starfa,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Fljótari og skilvirkari svörun og betri miðlun upplýsinga
„Viðskiptavinum hefur fjölgað jafnt og þétt og nú eru yfir 700 hús- og rekstrarfélög með um 15.500 íbúðir/eignir í þjónustu hjá okkur. Eðlilega er rík krafa um svör og aðgerðir án verulegra tafa. Þær væntingar reynum við sannarlega að uppfylla en ég held að það hefði verið okkur þungt í skauti að sinna öllum okkar viðskiptavinum ef við hefðum ekki lagt umtalsverðan tíma og fjármuni í að tölvuvæða og þróa sem mest af okkar starfsemi, þar á meðal allt fyrirkomulag svörunar og samskipta,“ bætir Páll við.
„Tilkoma þjónustuversins hefur bæði skilað fljótari og skilvirkari svörun erinda og markvissari og betri miðlun upplýsinga til viðskiptavina og þjónustuaðila. Um leið og þjónustuverið tók til starfa var líka tekið í notkun sérhannað verkbókhald og öflugt upplýsingakerfi sem tryggir að allar verkbeiðnir og erindi sem berast til okkur eru bókfærð og þeim svarað innan ásættanlegs tíma.“
Nýr liðsmaður í þjónustuverinu
Nýlega bættist áttundi starfsmaðurinn í hópinn í þjónustuverinu þegar Þórhallur Sveinsson kom til liðs við Eignaumsjón. Þórhallur starfaði áður hjá Eignarekstri í tvö ár og þar áður var hann lagerstjóri í 21 ár hjá Opnum kerfum.
„Við fögnum komu Þórhalls til okkar og erum sannfærð um að hann muni efla starfsemi þjónustuversins enn frekar,“ segir Páll.
Auk almennrar ráðgjafar til eigenda fasteigna og hússtjórna mun Þórhallur sinna þjónustu við húsfélög vegna framkvæmda af ýmsum toga, s.s. að útvega þjónustuaðila, verktaka og tilboð.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón sérhæfir sig í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis með það að markmiði að gera rekstur fasteigna bæði markvissari og hagkvæmari, auka upplýsingaflæði til eigenda og hússtjórna og auðvelda störf þeirra.