Fólkið okkar – Lilja
Lilja Kristinsdóttir er ein af fjórum bókurum Eignaumsjónar. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, bjó fyrir vestan hátt í þrjá áratugi og var nýflutt í Hafnarfjörðinn þegar hún hóf störf hjá Eignaumsjón fyrir fimm árum.
„Ég flutti til Flateyrar árið 1989 og ætlaði bara að stoppa þar í þrjá mánuði en endaði með að búa þar til 2012, með skreppi í Háskólann á Bifröst þar sem ég tók BS gráðu í viðskiptafræði,“ segir Lilja.
Fyrsta árið á Flateyri vann Lilja í fiski en fór svo að vinna á skrifstofu Flateyrarhrepps. Eftir sameiningu sveitarfélaga vestra árið 1996 vann hún á skrifstofu Kambs á Flateyri og eftir sameiningu við Básafell hóf hún störf á skrifstofu félagsins á Ísafirði. „Árið 1999 fór ég í Háskólann á Bifröst og fékk svo vinnu hjá Sparisjóði Vestfirðinga, fyrst með starfsstöð á Flateyri og síðan á Ísafirði þegar ég flutti þangað 2012. Úr sparisjóðnum lá svo leiðin yfir í Landsbankann á Ísafirði þar sem ég var fyrirtækjasérfræðingur þar til ég flutti til Hafnarfjarðar 2016 og byrjaði að vinna hjá Eignaumsjón.“
Debet og kredit skemmtilegast!
Umsvif Eignaumsjónar hafa aukist mikið á þeim fimm árum sem liðin eru síðan Lilja kom til starfa hjá félaginu. Þá voru starfsmenn 11 en eru nú 25 og hús- og rekstrarfélögin í umsjón félagsins hefur líka fjölgað umtalsvert og eru nú um 700, með um 15.000 íbúðum/eignarhlutum.
„Helstu áskoranirnar hjá okkur í bókhaldinu er bara að standa vaktina og sinna vel sífellt stækkandi félögum sem eru að koma í umsjón hjá okkur,“ segir Lilja og bætir við að þar skipti sköpum mikil hugbúnaðar- og tölvuvæðing hjá Eignaumsjón sem sé alltaf að þróast og batna og létti öllum verkin. Aðspurð hvað sé skemmtilegast við vinnuna svarar hún strax „debet og kredit“ og brosir breitt yfir svip spyrilsins sem skilur ekki bókaragrín!
Hlaup og fjallaferðir
Lilja er dugleg að hugsa um heilsuna og stundar m.a. hlaupaæfingar þrisvar í viku með hlaupahóp FH í Hafnarfirði, án þess þó að vera í neinum keppnishlaupum.
„Svo á ég hundinn Bósa, sem ég fer með í göngutúr á hverjum degi,“ segir Lilja og bætir við að fjölskyldan, hún og maðurinn hennar, sonur og tengdadóttir, sé líka dugleg að nýta sér sumarhús í Kaldbaksvík á Ströndum, sem fjölskylda eignmannsins á og er alger paradís.
„Ég hef gaman af útveru og fór Laugaveginn fyrir tveimur árum og í sumar ætla ég að ganga yfir Fimmvörðuháls. Við ferðuðumst innanlands í fyrra, eins og flestir og eigum fellihýsi sem við notum mikið á sumrin þegar við þeysumst um landið að elta góða veðrið. Eflaust verður við líka á ferðinni í sumar, þó ekki séu margir staðir sem við eigum eftir að skoða. Það ræðst svo af gangi bólusetninga og faraldursins hvort hægt verði að skreppa út fyrir landsteinana í sumarfríinu!“