Það verður sífellt algengara að ýmiss konar félög fái Eignaumsjón til að sjá um rekstur fasteigna og þjónustu sem honum tengist. Þjónustan er sniðin og mótuð eftir þörfum viðskiptavina. Eignaumsjón verður í raun skrifstofa þeirra félaga sem koma í viðskipti og eini prókúruhafi á bankareikningum og sér til þess að rétt sé staðið að málum.
Eignaumsjón hf. býr að 20 ára þekkingu og reynslu á sínu sviði og er leiðandi í rekstrarumsjón og þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa á Íslandi. Félagið hefur vaxið ört á síðustu árum og sífellt fleiri félög leita til Eignaumsjónar, sem sér nú um rekstur um 690 félaga með um 14.500 íbúðum/eignarhlutum. Bróðurparturinn eru húsfélög í fjölbýlishúsum ásamt rekstrarfélögum atvinnuhúsnæðis, leigufélögum, sumarbústaðafélögum og ýmiss konar félagasamtökum sem sjá sér hag í því að láta Eignaumsjón annast reksturinn að því marki sem hverjum og einum viðskiptavini hentar.
Jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn
Eignaumsjón er líflegur vinnustaður, starfsmenn eru 26 talsins, með fjölbreyttan bakgrunn, mikla þekkingu og samskipti eru mikil við bæði viðskiptavini og þjónustuaðila. Áhersla er lögð á skýra verkferla, skjót svör og teymisvinnu ásamt því að vera með skráð þjónustumarkmið og gildi, sem eru: Gott viðmót, þekking og skilvirkni.
Rekstri Eignaumsjónar er skipt í þrjú svið: fjármála-, fasteigna- og þjónustusvið. Þeim veita forstöðu Ágústa Katrín Auðunsdóttir, Sigurbjörg Leifsdóttir og Páll Þór Ármann, en Daníel Árnason er framkvæmdastjóri félagsins. Kynjahlutföll eru því jöfn í stjórnendahópnum.
Í upphafi snerist starfsemin einvörðungu um þjónustu við húsfélög íbúðarhúsa, en nú er einnig boðið upp á þjónustu við hin ýmsu rekstrar- og leigufélög auk þess sem húsumsjón, sem er nýleg þjónusta, hefur hitt í mark hjá bæði atvinnuhúsum og stærri íbúðarhúsum. Þá er æ algengara að byggingaverktakar sjái sér hag í að fá Eignaumsjón til að stofna húsfélög í nýjum fjölbýlishúsum áður en eignir fara í sölu, til að tryggja að rekstur sameignar og þjónusta sem máli skiptir sé til staðar þegar íbúar flytja inn og notkun hússins hefst.
Fjármálin eru grunnurinn í þjónustunni
„Umsjón fjármála viðskiptavina er grunnurinn í okkar þjónustu, að tryggja að þau séu bæði traust og skilvirk. Við tökum að okkur hlutverk gjaldkera og pössum upp á að allir reikningar séu greiddir tímanlega, önnumst útsendingu hús- og framkvæmdagjalda og gerum árs- og kostnaðaruppgjör og -áætlanir fyrir félögin,“ segir Ágústa Katrín, sem stýrir fjármálasviðinu. „Við sækjum einnig um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu fyrir viðskiptavini okkar og má til dæmis nefna að á nýliðnu ári sóttum við um endurgreiðslu á um 375 milljónum króna vegna átaksins Allir vinna.“
Eignaumsjón passar líka upp á að kostnaðarskipting félaga sé í samræmi við lög og aðstoðar við framkvæmdauppgjör og innheimtu vegna stærri viðhaldsframkvæmda. „Í tilefni af 20 ára afmæli félagsins í haust endurbættum við og uppfærðum Húsbókina á heimasíðunni okkar, þar sem bæði eigendur og stjórnir félaga geta nálgast upplýsingar um málefni sinna félaga og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum, hvar og hvenær sem þeim hentar,“ segir Ágústa Katrín.
Húsumsjón og rekstur atvinnuhúsa
„Algengast er að minni og meðalstór atvinnuhús séu í þjónustuleið hjá okkur, sem felur í sér fjármálaþjónustu og aðalfund. Þá sjáum við um að innheimta gjöld og greiða reikninga, gera ársuppgjör, leggja drög að kostnaðaráætlun og undirbúa og halda aðalfundi,“ segir Sigurbjörg, sem stýrir fasteignasviðinu. „Stærri félög eru enn fremur í auknum mæli að nýta þjónustu sem felur í sér að við tökum að okkur framkvæmdastjórn viðkomandi félags, stýrum daglegum rekstri og sjáum auk þess um fjármál og fundi.“
Húsumsjón Eignaumsjónar heyrir líka undir fasteignasviðið og hefur fengið góðar viðtökur hjá bæði íbúðar- og atvinnuhúsum. Segja má að með henni komi húsfélagið sér upp „húsverði í hlutastarfi“ að sögn Sigurbjargar. „Þá heimsækja umsjónarmenn húsið reglulega og hafa m.a. eftirlit með umgengni, kerfum og öðrum búnaði í sameign ásamt þjónustuaðilum viðkomandi eignar. Þeir sinna einnig smærra viðhaldi og taka við ábendingum frá stjórn hússins um það sem betur má fara.“
Viðtal í FKA blaðinu Konur í atvinnulífinu, dreift með Fréttablaðinu 27. janúar 2021.