Aug 23, 2019 | Fréttir
Vegna aukinna umsvifa hjá fjármálasviði Eignaumsjónar hefur Inga Björg Kjartansdóttir, sem kom til starfa í Þjónustuveri Eignaumsjónar í byrjun árs 2019, nú fært sig um set í starf gjaldkera.
Inga Björg sinnir almennum gjaldkerastörfum, s.s. greiðslu reikninga, eftirfylgni krafna og úrlausn fjármálatengdra verkefna viðskiptavina ef þarf, í samráði við fjármálateymi Eignaumsjónar.
Inga Björg er langt komin með nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri í fjarnámi. Hún er einnig með verslunar- og stúdentspróf frá Borgarholtsskóla. Áður en Inga Björg hóf störf hjá Eignaumsjón starfaði hún við ýmis verslunar- og skrifstofustörf, m.a. hjá Stórkaup, Primera Air, Bílanaust/N1 og Elko.
Inga Björg er boðin velkomin í nýtt starf hjá Eignaumsjón.
Jul 10, 2019 | Fréttir
Ágústa Katrín Auðunsdóttir hefur tekið við stöðu forstöðumanns fjármálasviðs Eignaumsjónar hf. af Gunnari Pétri Garðarssyni, sem látið hefur af störfum. Ágústa hefur starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði Eignaumsjónar sl. tvö ár. Hún er því öllum hnútum kunnug við að leiða fjármálasvið félagsins, uppbyggingu þess og þróun.
Ágústa er með MCF meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á reikningshald. Áður en hún réðst til Eignaumsjónar sinnti hún sérfræðistörfum á fjármálasviði hjá Nordic Visitor og þar áður var hún bókhaldsfulltrúi hjá Lyfju.
Fjármálasvið er eitt þriggja meginstarfssviða Eignaumsjónar en félagið er sérhæft í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög með það að markmiði að gera rekstur fasteigna bæði markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og hússtjórna og auðvelda störf þeirra.
May 17, 2019 | Fréttir
Eignaumsjón er með samninga við fjölmarga þjónustuaðila og birgja sem geta skilað viðskiptavinum félagsins umtalsverðum afslætti, s.s. hjá ræsingafyrirtækjum, öryggisfyrirtækjum, orkusölufyrirtæki, lögfræðiþjónustu, iðnfyrirtækjum og fleiri þjónustufyrirtæki.
„Allt er þetta gert til að lækka kostnað og skila bæði húsfélögum og íbúunum sparnaði í daglegri þjónustu svo um munar í krafti markaðsstærðar okkar,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Af áhugverðum afsláttarkjörum má fyrst nefna samkomulag við HS Orku sem skilar föstum afslætti af smásöluverði raforku. Samningurinn er í boði fyrir sameignir í öllum húsfélögum sem nýta sér þjónustu Eignaumsjónar og íbúðaeigendur í fjöleignarhúsum í þjónustu hjá Eignaumsjón geta einnig fengið sömu afsláttarkjör á smáöluverði raforku fyrir sínar eignir. Þjónustusamningur við Securitas felur í sér bætt kjör og aukna þjónustu á sviði öryggismála fyrir viðskiptavini Eignaumsjónar sem vilja nýta sér hann. Samningurinn nær m.a. til fjargæslu bruna- og innbrotakerfa, útkallsþjónusta, reglubundinnar skoðunar búnaðar, prófunar og viðhalds öryggisbúnaðar, slökkvitækjaþjónustu, tækniþjónustu og tæknilegrar ráðgjafar. Þá skilar þjónustusamningur við Lögborg lögfræðiþjónustu viðskiptavinum Eignaumsjónar fjórðungsafslætti frá verðskrá vegna lögfræðiaðstoðar í málum sem tengjast húsfélögum. Þar má nefna innheimtu húsfélags- og framkvæmdagjalda, ágreiningsmál innan húsfélaga, húsaleigumálum, samning við verktaka og mál vegna byggingargalla.
May 3, 2019 | Fréttir
Alls er búið er að halda 331 aðalfund frá ármótum til dagsins í dag hjá hús- og rekstrarfélögum sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón og einungis eftir að halda örfáa fundi, en samkvæmt 59. grein laga um fjöleignarhús skal halda aðalfundi húsfélaga fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.
„Aðalfundatíminn er ávallt áhugaverður, enda gefst þá tækifæri til að hitta viðskiptavini okkar og heyra hvað helst brennur á þeim,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Sorp- og rafbílamál
Aðspurður hvað brenni helst á fólki á aðalfundum, fyrir utan afgreiðslu ársreikninga og fjármála félaganna, segir Páll að bókanir vegna sorpmála, s.s. sorpflokkunar og umgengni um sorpgeymslur, séu ótrúlega algengar á aðalfundum.
„Það er bara eins og við kunnum bara ekki að ganga um sorpgeymslur og fylgja reglum um sorpflokkun. Þá er líka mikil þörf á að sveitarfélög og fyrirtæki sem sinna sorphirðumálum geri átak í að koma þessum málum í betra horf, í takt við þá umræðu og kröfur sem eru í þjóðfélaginu í dag um að auka enn frekar endurvinnslu og draga úr sóun.“
Annað sem brennur á íbúum fjöleignarhúsa, einkum þá stærri húsfélögum, eru hleðslumál rafbíla og þróun þeirra mála, enda eru þar flókin viðfangsefni sem þarf að leysa fyrr en seinna.
Umhverfismál sívaxandi þáttur
„Umhverfimál eru sívaxandi þáttur í því sem viðskiptavinir okkar eru að velta fyrir sér. Sömuleiðis eru viðhaldsmál, ekki síst í eldri húseignum, alltaf umfangsmikill málaflokkur og þar er ánægjulegt að skynja aukinn vilja og skilning á því að færa deildarskipt húsfélög í eitt félag sem tekur utan um ytra byrði húss og lóðar. Á þann hátt er allur rekstur húsfélagsins færður í eitt deildarskipt félag sem eykur hagræðingu og einfaldar öll samskipti,“ segir Páll að lokum.
Jan 22, 2018 | Fréttir, Greinar
Mikil verðmæti eru fólgin í fasteignum landsmanna sem sést m.a. af því að í árslok 2016 nam verðmæti vátryggðra fasteigna hjá Viðlagatryggingu Íslands 8.015 milljörðum króna. Til að tryggja að verðmæti fasteigna rýrni ekki þarf að sinna viðhaldi þeirra vel og skipulega en þar er því miður víða pottur brotinn hérlendis.
Eins og nýleg dæmi sanna hefur „íslenska aðferðin“ oftar en ekki verið sú að bíða með viðhald og viðgerðir fasteigna þar til í óefni er komið, með tilheyrandi aukakostnaði og raski sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með reglubundnu viðhaldi og skipulagðari vinnubrögðum.
Þegar keyptur er notaður bíll fer hann gjarnan í gegnum söluskoðun, honum fylgir smurbók, vottorð um tjónasögu og ennfremur fær hugsanlegur kaupandi að setjast undir stýri og prófa ökutækið.
Auka þarf kröfur um upplýsingaskyldu
Þessu er alls ekki svona farið þegar um er að ræða fasteignaviðskipti. Þrátt fyrir takmarkaða möguleika kaupanda til að sannreyna ástand og eiginleika húss, hvílir ábyrgðin og skoðunarskylda fyrst og fremst á kaupanda. Seljanda er einungis skylt að upplýsa um yfirstandandi eða formlega samþykktar viðhaldsframkvæmdir. Í þessum samanburði við bílaviðskiptin er einnig rétt að minna á að í fasteignaviðskiptum er oft verið að meðhöndla ævisparnað og lífeyrissjóð einstaklinga og fjölskyldna. Með öðrum orðum, fasteignaviðskiptum fylgir of oft áhætta, áhætta sem ekki er reynt að draga úr með auknum kröfum um upplýsingaskyldu af hálfu seljanda. Það verður að teljast eðlileg krafa að samhliða sölu á notaðri fasteign fylgi ástandslýsing hennar og viðhaldssaga og rétt að hvetja löggjafann til að bæta úr hvað þetta varðar.
Til að brjótast út úr þessum vítahring er eðlilegt að leggja áherslu á að safna skipulega hagnýtum upplýsingum um fasteignir til að birta með sölugögnum og veita þannig sem besta yfirsýn yfir ástand viðkomandi fasteignar.
„Þjónustubók“ fjöleignarhúsa
Æskilegt er að festa í lög ákvæði um upplýsingaskyldu af þessu tagi. Þar koma eflaust margar leiðir til greina, en sem dæmi um nálgun vil ég leyfa mér að nefna eins konar „þjónustubók“ fjöleignarhúsa, þar sem íbúar húsfélags geta nálgast á einum stað allar upplýsingar um umgengis- og öryggismál sinnar húseignar, ásamt hagnýtum upplýsingum, s.s. um fjármál, byggingarsögu og viðhald.
Það er trú mín að slík húsbók leiði til betra fyrirkomulags fasteignaviðhalds og meiri reglufestu í fjölbýlishúsum og geti því vel nýst sem innlegg í endurskoðun á lögum og reglum um fjöleignahús. Jafnframt yrði húsbókin ómetanlegt tæki við kaup og sölu íbúða í fjölbýlishúsum – því þar væru aðgengilegar á einum stað allar upplýsingar um viðkomandi eign og viðhaldssögu hennar!
Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.