Aðgangsstýringar og öryggismál – ný sérþjónusta fyrir húsfélög
Eignavöktun er ný þjónustuleið hjá Eignaumsjón fyrir húsfélög sem eru að koma upp aðgangsstýringu og öryggiskerfum í fjöleignarhúsum. Eignaumsjón tekur einnig að sér rekstur og umsjón slíkra kerfa fyrir húsfélög.
Mikil aukning hefur verið í uppsetningu öryggiskerfa í fjölbýlishúsum og bílageymslum á undanförnum árum og töluvert um að húsfélög hafi leitað til Eignaumsjónar um aðstoð við umsjón og rekstur slíkra kerfa.
Eftir greiningu á þeim vandamálum sem þessi húsfélög hafa verið að glíma við er það mat sérfræðinga okkar að þroskaður markaður sé til staðar hérlendis í sölu búnaðar en ekki í rekstri og umsýslu þessara kerfa,“ segir Gunnþór S. Jónsson, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Úttekt og eftirlit með uppsetningu
„Til að ná fram skilvirkari og hagkvæmari lausnum í öryggismálum og tryggja betri yfirsýn, verkeftirlit og kostnaðargát, bjóðum við nú húsfélögum upp á þríþætta þjónustuleið sem við köllum Eignavöktun til að tryggja ábyrgan rekstur og faglega umsjón með öryggiskerfum húsfélaga,“ segir Gunnþór. Fyrsta skrefið í þjónustunni er fagleg og hlutlaus úttekt á öryggismálum viðkomandi fjölbýlishúss og eða bílageymslu í samráði við stjórn húsfélagsins.
„Sérfræðingur okkar skoðar fasteignina og útbýr skýrslu með tillögu að miðlægu aðgangsstýringar- og/eða öryggiskerfi, byggt á áhættugreiningu viðkomandi fasteignar. Tillaga að verk- og kostnaðaráætlun fylgir með skýrslu til stjórnar og við sjáum einnig um öflun tilboða frá búnaðarsölum, greinum þau og berum saman og skilum minnisblaði til stjórnar fyrir ákvarðanatöku með hag húsfélagsins að leiðarljósi,“ segir Gunnþór. Næsta skref í þjónustunni er eftirlit fyrir hönd húsfélaga með uppsetningu aðgangsstýringar og/eða öryggiskerfa í viðkomandi fjölbýlishúsum og/eða bílageymslum. Þannig er tryggt að uppsetning kerfis sé gerð í samræmi við samþykkt tilboð, með tilliti til efnis, vinnu og virkni kerfisins og prófanir gerðar á virkni. Fylgst er með framvindu verks og skilamat sent stjórn til undirbúnings og samþykktar húsfélags á reikningum.
Rekstur kerfis og umsjón
Til að stjórnir húsfélaga hafa góða yfirsýn yfir rekstrarkostnað öryggiskerfa þarf stýring og umsjón að vera trygg og ábyrg. „Við tökum að okkur rekstur, umsjón og umsýslu slíkra kerfa í umboði hússtjórna í fjölbýlishúsum,“ segir Gunnþór og bætir við að sá hluti þjónustunnar feli í sér eftirlit með stöðu og virkni kerfa í rauntíma. „Íbúar og notendur hafa aðgang að þjónustuveri okkar á skrifstofutíma og varðveisla gagna er tryggð, sem og rétt skráning rétthafa. Við innheimtum fyrir þjónustuna með húsgjöldunum, sem lækkar kostnað og innheimtu- og greiðslufyrirkomulagið er sanngjarnt: Sá greiðir sem notar!“